*

laugardagur, 6. júní 2020
Innlent 25. nóvember 2018 14:05

Aukin sérhæfing hjá Gamma eftir kaupin

Gamma verður dótturfélag Kviku, en forstjórar beggja fyrirtækja sjá mikil samlegðartækifæri í kaupunum.

Júlíus Þór Halldórsson
Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku, og Valdimar Ármann, forstjóri Gamma.
vb.is

Ármann Þorvaldsson segir samlegðaráhrif kaupa Kviku á Gamma öðru fremur felast í þeirri stærðarhagkvæmni sem fólgin sé bæði í eðli fjármálafyrirtækja og regluverkinu sem um þau gildir. 

Sömu rök gildi um kaupin á Gamma og um kaup Kviku á sjóðstýringarfyrirtækjunum Virðingu og Öldu í fyrrasumar. „Að einhverju leyti er verið að reka sambærilega sjóði og það verða einhverjir möguleikar í sameiningu þeirra. Svo eru möguleikar í að sameina og hagræða í yfirbyggingu. Eftirlitsskyld fjármálafyrirtæki þurfa að vera með rosalega mikla yfirbyggingu sem við eigum að geta samþætt að einhverju leyti. Eins og við höfum séð með kaupunum á Virðingu og Öldu þá er talsverð samlegð í að sameina þessi eignastýringarfyrirtæki.“

Sjóðir, ráðgjöf og erlend útibú sameinuð
Samkvæmt tilkynningu um kaupsamninginn á mánudag stendur til að Gamma verði áfram rekið sem sérfélag og verði þá dótturfélag Kviku. Valdimar og Ármann segja þó einhverjar hagræðingaraðgerðir í pípunum, en enn eigi ýmislegt eftir að koma í ljós í þeim efnum.

Ármann segir að þótt ekki standi til að sameina félögin í heild verði farið vel yfir hvar sé hægt að hagræða. Sérhæfing muni að öllum líkindum aukast. „Það er ekki gert ráð fyrir öðru en að Gamma verði sjálfstætt starfandi. Hins vegar er líklegt að sjóðir verði sameinaðir, þannig að það getur færst á milli starfsemi.“

Fyrir liggur að skrifstofur félaganna í London verða sameinaðar, sem Valdimar segir að muni styrkja báða aðila. Þá stendur til að Gamma hætti rekstri fyrirtækjaráðgjafar, enda yrði hún annars í beinni samkeppni við ráðgjöf Kviku.

„Það hefur alveg sést að við höfum verið að minnka umsvif okkar fyrirtækjaráðgjafar, þannig að það er ljóst að það verður ekki rekin ráðgjöf undir merkjum Gamma. Starfsfólki hjá Gamma hefur fækkað og það hefur verið liður í hagræðingaraðgerðum og straumlínulögun fyrirtækisins sem við höfum verið að ganga í gegnum. Þannig að við erum dálítið vel undirbúnir undir það að fara undir nýtt eignarhald,“ segir Valdimar.

Ákvörðun um hagræðingu óháð kaupunum
Valdimar segir það heppilega tilviljun að Gamma hafi ákveðið að hagræða og einfalda reksturinn stuttu áður en viðræður hófust við Kviku. „Það fór bara vel saman að við hluthafarnir vildum, strax síðasta vetur, áður en við töluðum við Kviku, skerpa starfsemina og einbeita okkur að sjóðastýringu, sem við höfum verið að gera vel. Við byrjuðum því að skala hitt niður, eins og fyrirtækjaráðgjöf. Þetta var í raun svipuð lína hvort sem Kvika hefði keypt eða ekki.

Meðan á viðræðum við Kviku stóð í vor þá vorum við bara að reka fyrirtækið eftir okkar sannfæringu og bestu getu og vitund. Það fól í sér að straumlínulaga og skerpa fókusinn eftir útrásina í fyrra og annað slíkt. Við ákváðum að hugsa aðeins inn á við og fara í kjarnastarfsemina. Það passaði síðan bara ágætlega við þá hugmyndafræði að Kvika myndi kaupa, en það var ekki gert sérstaklega með það fyrir stafni,“ segir hann að lokum.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.