Isavia skrifaði á dögunum undir samning við fyrirtækið secunet um uppsetningu sjálfvirkra landamærahliða á Keflavíkurflugvelli, en á vellinum verða sett upp alls 12 hlið sem eiga að hraða afgreiðslu og auka þægindi.

Samningurinn er gerður að undangengnu útboði og í góðu samstarfi við ríkislögreglustjóra og lögreglustjórann á Suðurnesjum, en landamæraeftirlit á Keflavíkurflugvelli er framkvæmt af lögreglunni.

Alls verða tólf hlið sett upp í sumar og er gert ráð fyrir að þau muni hraða afgreiðslu í landamæraeftirliti og auka þægindi farþega.

Notuð á stærstu flugvöllum Þýskalands

Hröð og góð afgreiðsla í landamæraeftirliti skiptir farþega miklu máli og sérstaklega þegar þeir nota Keflavíkurflugvöll sem tengipunkt á milli Evrópu og Norður-Ameríku, en tengifarþegum sem fara um flugvöllinn fer sífellt fjölgandi.

Sjálfvirk landamærahlið eru orðin algeng sjón á flugvöllum í Evrópu og eru secunet landamærahliðin meðal annars
notuð á stærstu flugvöllum í Þýskalandi, auk flugvallarins í Prag í Tékklandi.

Hliðin lesa upplýsingar í vegabréfi farþega auk þess að bera myndina í vegabréfinu við mynd sem hliðið tekur af farþeganum á flugvellinum. Þannig komast farþegar um landamærin á öruggan og fljótlegan hátt.

Landamæraeftirlitið fylgist með notkun og taka lögreglan og landamæraverðir við ef hliðin telja að skoða þurfi ákveðið vegabréf betur.

Sjálfsafgreiðsla þar sem biðraðir myndast

Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, segist í fréttatilkynningu þau hjá fyrirtækinu vera hæstánægð með að taka í notkun sjálfvirk landamærahlið á Keflavíkurflugvelli.

„Við höfum unnið markvisst að því að auka sjálfvirkni á flugvellinum og þegar landamærahliðin verða komin upp verðum við búin að innleiða sjálfsafgreiðslu á öllum helstu stöðum þar sem biðraðir geta myndast,“ er þar haft eftir Birni Óla.

„Það á við um innritun farþega og farangurs, skoðun á brottfararspjaldi, vopnaleit, vegabréfaeftirlit og byrðingu. Þessi áhersla á aukna sjálfvirkni hefur skilað sér í stórauknum þægindum fyrir farþega og gert allt ferðalagið um flugstöðina skilvirkara og betra.“

Kemur ekki niður á öryggi

Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir lögregluna spennta fyrir að taka nýju hliðin í notkun.
„Þau munu verða til þess að við getum haldið uppi góðu þjónustustigi og afköstum í landamæraeftirliti án þess að það komi á nokkurn hátt niður á öryggi,“ er þar jafnframt haft eftir Ólafi Helga.

„Samstarfið við Isavia hefur verið mjög gott og verður það ánægjulegt fyrir okkur og ekki síst fyrir farþegana þegar hliðin verða komin í notkun í nýjum og stærri landamærasal á Keflavíkurflugvelli.“