Ákveðið hefur verið að auka sjálfvirkni í rekstri ratsjárstöðva Ratsjárstofnunar þannig að í staðinn fyrir mannaða sólarhringsvakt í öllum fjórum stöðvum stofnunarinnar verður þremur ratsjárstöðvum í framtíðinni fjarstýrt frá ratsjárstöðinni á Miðnesheiði. Á næstu mánuðum verður unnið að því að koma upp nauðsynlegum búnaði þannig að hægt verði að tengja stöðvarnar við stöðina á Miðnesheiði. Gert er ráð fyrir að sjálfvirkni í rekstri stöðvanna aukist í áföngum og verði að fullu komin til framkvæmda haustið 2007.

Þessi breyting mun hafa í för með sér uppstokkun og fækkun í starfsliði Ratsjárstofnunar og hefur stofnunin því hafið samráð við trúnaðarmenn starfsmanna um fyrirhugaðar breytingar í samræmi við lög um nr. 69/2000 um hópuppsagnir segir í tilkynningu frá Ratsjárstofnun.

Í dag starfa 79 manns hjá Ratsjárstofnun en þar af eru 32 starfsmenn á sólarhringsvöktum í ratsjárstöðvunum fjórum. Ekki liggur endanlega fyrir hver starfsmannafjöldi Ratsjárstofnunar verður eftir að skipulagsbreytingin er að fullu komin til framkvæmda og ræðst það meðal annars af endanlegri útfærslu kerfisins.

Ratsjárstofnun rekur ratsjárstöðvar á Miðnesheiði, Bolafjalli, Gunnólfsvíkurfjalli og á Stokksnesi auk hugbúnaðarsviðs og birgðastöðvar á Keflavíkurflugvelli og skrifstofu í Reykjavík. Upplýsingar sem Ratsjárstofnun aflar um flugumferð yfir Íslandi og umhverfis landið eru nýttar af varnarliðinu, NATO og Flugmálastjórn Íslands

"Rekstur ratsjárstöðvanna er alfarið greiddur af bandarískum stjórnvöldum samkvæmt samningi sem gerður var árið 1987 en þá tóku Íslendingar yfir rekstur ratsjárstöðva varnarliðsins á Íslandi. Á liðnum árum hefur sjálfvirkni í rekstri bandarískra ratsjárkerfa verið aukin til muna og í ljósi þess að stöðvarnar hér á landi eru byggðar og reknar samkvæmt bandarískum stöðlum er talið eðlilegt að rekstur ratsjárstöðvanna hér á landi verði aðlagaðar að þeim tæknilegu breytingum sem þar hafa orðið. Komin er liðlega 10 ára reynsla af rekstri fjarstýrðra ratsjárstöðva víða í vestur Evrópu, í Bandaríkjunum og Kanada og hafa þær gefist vel," segir í tilkynningunni.