Smásöluvelta í Bretlandi var talsvert meiri í júní en væntingar voru um en hún jókst um 0,9% milli mánaða. Smásala nemur um þriðjungi af einkaneyslu Breta og hefur því mikil áhrif á þróun landsframleiðslu. Þetta kemur fram í Hálffimm fréttum KB banka.

Aukinn hagvöxtur samhliða vaxandi verðbólgu sem mælist nú 2,5% ýtir undir væntingar um hækkun stýrivaxta þar í landi. Þó hafa hagvísar verið nokkuð misvísandi því skráð atvinnuleysi hefur verið að aukast að undanförnu. Breski Seðlabankinn spáir því að hagvöxtur verði í kringum 2,6% í ár eftir að hafa náð 13 ára lágmarki í fyrra þegar hann mældist aðeins 1,8%.