Tiltrú þýskra fjárfesta og greinenda til efnahagsástands næstu sex mánaða jókst óvænt í nóvember.

Vísitalan mældist -53,5 í mánuðinum samanborið við -63 í október.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis.

Vísitölugildi undir núlli merkja að svarendur eru svartsýnir á horfur næsta hálfa árið.

Í Morgunkorni kemur fram aða vísitalan náði sögulegum lágpunkti júlí þegar hún mældist -63,9  sem er lægsta gildi vísitölunnar frá því að mælingar hófust í desember 1991.

„Ástæða þessarar óvæntu hækkunar nú er talin vera aðgerðir stjórnvalda og seðlabanka víða um heim sem beita sér nú að auknum þunga til að hrinda burt ógnunum lausafjárkreppunnar,“ segir í Morgunkorni.

„Sérfræðingar telja að þrátt fyrir aukna tiltrú fjárfesta verði þau örlög þýska hagkerfisins ekki flúin að efnahagslægð er framundan og búist er við að atvinnuleysi muni aukast á næstu mánuðum og landsframleiðsla dragast saman. Þess er vænst að fjármálakreppan muni halda þýska hagkerfinu í greipum sér allt næsta ár en í kjölfarið fari að sjást til sólar í nýjan leik.“