Tiltrú neytenda á horfum í efnahagsmálum hefur vaxið á ný samkvæmt Væntingavísitölu Gallup sem birt var í morgun og snarhækkaði frá fyrri mánuði, segir greiningardeild Glitnis. Væntingavísitalan er 119,6, lægst var hún 88,1 stig í júlímánuði.

?Vísitölugildi yfir 100 stigum táknar að fleiri neytendur séu bjartsýnir en svartsýnir. Neytendur virðast hafa tekið gleði sína að nýju þrátt fyrir gengisfall krónunnar, verðbólguskotið sem fylgdi í kjölfarið og útlit fyrir minnkandi vöxt hagkerfisins á næstu misserum.

Væntingar neytenda til ástandsins eftir sex mánuði hafa breyst verulega til batnaðar á síðustu vikum. Telja nú örlítið fleiri neytendur að efnahagsástandið verði betra að þeim tíma loknum en að það verði verra. Færri telja hins vegar að atvinnumöguleikar sínir verði meiri eftir sex mánuði en þeir sem telja að möguleikar sínir verði minni. Erfitt er að finna góða skýringu á aukinni bjartsýni neytenda í ljósi þess geysilega viðskiptahalla og annarra birtingarmynda ójafnvægis sem einkenna hagkerfið um þessar mundir og krefjast leiðréttingar," segir greiningardeildin.