Stjórn Spalar hefur falið framkvæmdastjóra félagsins að safna saman nauðsynlegum upplýsingum, í samvinnu við Vegagerðina, til undirbúnings viðræðum við ríkisvaldið um ný göng undir Hvalfjörð. Þetta kom fram í máli Gísla Gíslasonar, stjórnarformanns Spalar, þegar hann flutti skýrslu stjórnar á aðalfundi félagsins á Akranesi í gær. Gísli sagði það vera "tilfinningu stjórnar Spalar að stækkun ganganna geti orðið brýn innan 5-6 ára."

Gera mætti ráð það mikilli aukningu umferðar á næstu árum, ekki síst auknum þungaflutningum á vegum. Ástæða væri því til að huga að næsta áfanga Hvalfjarðarganga. Hann vísaði einnig til væntanlegrar aukningar umferðar í göngunum vegna frekari uppbyggingar á Grundartanga og hugsanlegar Sundabrautar og bætti við:

"Þeirri hugmynd hefur verið hreyft að mögulegt sé, fyrir innan við tvo milljarða króna, að leggja tvíbreið göng samhliða núverandi göngum að sunnanverðu sem tengist í botni ganganna. Slík aðgerð myndi auka afkastagetu Hvalfjarðarganga og auka umferðaröryggi verulega. Ekkert liggur fyrir um með hvaða hætti megi fjármagna slíkt verkefni en nauðsynlegt er að taka upp viðræður við ríkið um málið. Ljóst er að huga þarf að ýmsum atriðum í þessu efni, svo sem landi undir gangamunna, stöðu málsins gagnvart mati á umhverfisáhrifum, jarðfræðilegum upplýsingum og að sjálfsögðu fjármögnun."

Hafa lækkað um 40%

Rauntekjur af veggjaldi hafa lækkað um 40% frá því göngin voru opnuð
Rauntekjur Spalar af veggjaldi að frádregnum virðisaukaskatti eru nú um 670 krónur og hafa lækkað um 40% frá því göngin voru opnuð sumarið 1998. Í samningum félagsins um fjármögnun ganganna er kveðið á um að veggjaldið hækki í samræmi við verðlagsþróun en það hefur ekki gerst. Þvert á móti hefur veggjald áskrifenda verið lækkað verulega og gjöld fyrir stakar ferðir verið hið sama í krónum talið frá upphafi. Veggjaldið hefur því lækkað að raunvirði ár frá ári og við bætist að sífellt fleiri vegfarendur nýta sér afsláttarkjör sem í boði eru.

Stjórnarformaður Spalar vísaði til þess á aðalfundinum á Akranesi að nokkur umræða hefði verið um gjaldskrá félagsins, meðal annars vegna þingsályktunartillögu um að ríkið beitti sér fyrir því að veggjaldið lækkaði verulega eða félli niður. Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hafi ályktað um lækkun veggjalds og í nýrri skýrslu um áhrif ganganna sé talað um ný tækifæri í byggðaþróun norðan Hvalfjarðar geti falist í lækkun veggjaldsins. ,,Stjórn Spalar hefur enga afstöðu tekið til þessara atriða enda er félagið bundið flóknum og viðamiklum samningum við lánardrottna og ríkið um rekstur gangana og endurgreiðslu skulda sinna," sagði Gísli Gíslason og vék síðan að hugsanlegri endurmögnun Spalar.

"Stjórn Spalar er hins vegar reiðubúin til þess að gera það sem í hennar valdi stendur til að lækka kostnað vegfarenda um göngin með því að skoða hvort unnt sé að fá hagstæðari kjör á þeim skuldum sem hvíla á félaginu og ef til vill lengja endurgreiðslutíma lána. Eftir sem áður er ljóst að stjórn Spalar getur ekki við annað miðað en að greiða skuldir félagsins upp á skynsamlegum endurgreiðslutíma og breytingar á þeim samningum, sem félagið er bundið af, er flókinn og tímafrekur ferill. Málið hefur lauslega verið kynnt fjármálaráðherra og af hálfu stjórnar Spalar vinna framkvæmastjóri og formaður stjórnar í samvinnu við lögmann félagsins að nauðsynlegum undirbúningi og skoðun á því hvernig standa megi að þessu máli. Sem stendur eru ýmis skilyrði hagstæð til þess að endurskipuleggja lánamál félagsins en áður en ráðist er í verkefnið verður að hafa skýra mynd af því að aðgerðir af þessu tagi skili áfram traustum rekstri og ábata. Þá kann að vera skynsamlegt að skoða þennan þátt með tilliti til þess hvort hagkvæmt geti verið að nýta tækifærið til að einfalda nokkuð það módel sem notað var á sínum tíma við fjármögnun gangana, ekki síst ef huga þarf að stækkun ganganna innan fyrirsjáanlegs tíma."