Nokkrar sveiflur hafa verið þróun fasteignaverðs undanfarna mánuði sem er eðlilegt í ljósi lítilla umsvifa og þeirrar staðreyndar að fáir samningar liggja að baki vísitölunni.

Margir fasteignakaupendur hafa haldið að sér höndum og lítið svigrúm hefur verið til eðlilegrar verðmyndunar.

Þetta kemur fram í Hálffimm fréttum Kaupþings í kjölfar þess að í dag birti Fasteignamat ríkisins vísitölu íbúðaverðs fyrir júlí.

Þar segir Greiningardeild Kaupþings að mikið framboð húsnæðis, minni vöxtur kaupmáttar og hár vaxtakostnaður hafa skapað aðstæður til verðlækkunar sem vegna lítilla umsvifa hefur ekki enn komið fram.

„Jafnframt  kann það að vera að viðskipti eigi sér einkum stað með eignir sem halda verðhæfi sínu vegna þátta svo sem stærðar eða staðsetningar, sem geta verið mikilvægir í verðmyndun íbúðarhúsnæðis,“ segir Greiningardeildin.

„Í ljósi lítilla umsvifa á fasteignamarkaði ber að varast að draga of víðtækar ályktanir af hækkun vísitölu íbúðaverðs milli mánaða þar sem stór viðskipti gætu hæglega hreyft við vísitölunni.“