Heildartekjur Lykils jukust um 17% á fyrri helmingi ársins frá sama tímabili á árinu 2018 og námu 1,18 milljörðum króna.

Vaxtatekjur á tímabilinu hækkuðu um 396 milljónir króna frá sama tímabili í fyrra í samræmi en vaxtagjöld um 274 milljónir króna vegna aukinnar verðbréfa- og víxlaútgáfu auk þess sem erlend lántaka var greidd niður í samræmi við ákvæði lánssamnings. Hreinar vaxtatekjur hækkuðu því um 122 milljónir króna á milli ára, úr 618 milljónum króna í 740 milljónir króna milli ára.

Á móti jókst rekstrarkostnaður í 644 milljónir króna sem er hækkun um 7% frá sama tímabili í fyrra. Það er sagt skýrast af auknum umsvifum. Arðsemi eigin fjár var 4,2% á ársgrundvelli.

Heildarhagnaður lækkaði úr 817 milljónum í 254 milljónir króna en það skýrist af mestu vegna virðisbreytinga. Á fyrri hluta síðasta árs bókfærði Lykill tekjur af virðisbreytingu vegna úrlausnar á lagaóvissu upp á 436 milljónum króna og virðisbreytingu upp á 162 milljónir króna vegna leigusamninga og útlána. Sá liður var neikvæður um 71 milljón króna á fyrri helmingi þessa árs.

Heildareignir í lok tímabilsins voru 40,2 milljarðar króna og  jukust um 2,3 milljarða króna frá áramótum og 7,4 milljarða frá sama tímabili fyrir ári. Skuldir hækka úr 25,3 milljörðum í 28,5 milljarða króna og eigið fé úr 12,6 milljörðum króna í 11,7 milljarða milli júníloka 2018 og 2019.

TM á nú í viðræðum um kaup á Lykli af Klakka sem stefnt er að því að ljúka í september. Ef af verður mun kaupverðið nema 9,25 milljörðum króna auk hagnaðar þessa árs. Þá vinnur Lykill að því að fá bankaleyfi.