Ef fram fer sem horfir verða fjölmörg fyrirtæki skráð á markað á næstu 2-3 árum. Þó eru ekki allir sömu skoðunar um það hvort hlutabréfamarkaðurinn hér á landi verði virkur og samanburðarhæfur við erlenda markaði. Þetta kom fram á vel sóttum fundi Deloitte, Kauphallarinnar og Viðskiptaráðs um virkan hlutabréfamarkað sem haldinn var í Turninum sl. fimmtudag.

Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Framtakssjóðsins, sagði að sjóðurinn hygðist skrá fjögur rekstrarfélög í eigu sjóðsins á markað innan 2-3 ára. Félögin eru Icelandic Group, Skýrr, N1 og Promens. Ef fer sem horfir verður 88% af núverandi eignasafni sjóðsins komið á markað árið 2014.

Árni Jón Árnason, yfirmaður fjármálamarkaða hjá Deloittem var ekkert að skafa af því í erindi sínu og sagði að hér á landi væri ekkert til sem héti hlutabréfamarkaður eins og sakir standa. Með auknu trausti og gagnsæi væri þó hægt að byggja markaðinn upp á ný. Þá sagði Árni Jón að mikilvægt væri að heimilin í landinu gætu fjárfest beint á hlutabréfamarkaði, en ekki bara í gegnum lífeyrissjóðina. Það myndi hins vegar ekki gerast fyrr en stjórnvöld breyttu skattastefnu sinni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.