Umsvif Evrópuflutninga Samskipa aukast enn frekar 17. ágúst næstkomandi þegar félagið byrjar siglingar milli Zeebrugge i Belgíu og hafna í Skandinavíu og Eystrasaltslöndunum, með viðkomu í Rotterdam og á Bretlandseyjum að því er kemur fram í tilkynningu.

Þetta er liður í uppbyggingaráformum Samskipa og hafnaryfirvalda í Zeebrugge sem tilkynnt var um í byrjun þessa árs. Þá hófust jafnframt reglubundnar siglingar á vegum Samskipa milli Zeebrugge og hafna á Írlandi.

Uppbygging á gámaflutningastarfsemi Samskipa í Zeebrugge fer fram í samstarfi við belgíska gámalöndunarfyrirtækið PSA HNN, sem hefur umtalsverða reynslu í þjónustu við stór millilandaflutningaskip sem sigla til og frá Zeebrugge, en Rotterdam er eftir sem áður þungamiðjan í Evrópuflutningum félagsins.

Samskip eru nú með 26 skip í föstum áætlunarsiglingum innan Evrópu og yfir 13.000 gáma af ýmsum stærðum og gerðum. Gámaflutningaþjónusta Samskipa er ein sú umfangsmesta í Evrópu og býður félagið upp á vöruflutninga til yfir 30 landa, frá Rússlandi í austri til Íslands í vestri og frá Skandinavíu í norðri til Spánar og Ítalíu í suðri.