Vegna aukinna umsvifa eignarhaldsfélagsins Veritas Capital hf. var félagið gert að virku móðurfélagi um síðustu áramót og mun sem slíkt sinna allri stoðþjónustu fyrir dótturfélög sín auk þess að stunda fjárfestingarstarfsemi innan lands sem utan, segir í frétt frá félaginu.

Veritas Capital hf. sérhæfir sig í rekstri fyrirtækja á sviði heilbrigðis og heilbrigðisþjónustu.  Dótturfyrirtæki þess eru; Vistor hf. sem sinnir sölu- og markaðsmálum fyrir alþjóðleg fyrirtæki í lyfja- og heilbrigðistæknigeiranum, Artasan ehf. sem sinnir sölu- og markaðsmálum fyrir heilsuvörur og fæðubótaefni og Distica hf. sem sérhæfir sig í vörustjórnun og dreifingu.

Veritas Capital hefur ennfremur fjárfest í heilbrigðistæknigeiranum í Eystrasaltsríkjunum og stefnir á frekari umsvif bæði innan lands sem utan.

Forstjóri Veritas Capital er Hreggviður Jónsson og Guðbjörg Alfreðsdóttir hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri Vistor hf. en Guðbjörg hefur starfað hjá fyrirtækinu um árabil, nú síðast sem framkvæmdastjóri lyfjasviðs.

Tekjuvöxtur Veritas Capital samstæðunnar var um 40% á árinu 2007 og er áætluð heildarvelta á árinu 2008 rúmlega 9 milljarðar.  Hjá Veritas Capital samstæðunni starfa nú tæplega 200 starfsmenn.