Gjafavöruverslunin Rammagerðin hagnaðist um 154 milljónir króna árið 2019 en 36 milljónir árið áður. Rekstrarhagnaður félagsins jókst milli ára úr tæplega 44 milljónum króna í 187 milljónir. Töluverðar breytingar urðu hjá félaginu en það sameinaðist Miðnesheiði ehf. á árinu.

Rekstrartekjur Rammagerðarinnar jukust úr 670 milljónum í 1,6 milljarða. Á sama tíma ríflega tvöfaldaðist kostnaðarverð seldra vara og nam 715 milljónum árið 2019. Stöðugildi félagsins voru 36 í lok árs en 21 árið áður. Eignir félagsins námu milljarði króna í lok árs 2019 en 258 milljónum árið áður, kröfur á tengd félög jukust um 650 milljónir.

Eigið fé félagsins nam 688 milljónum króna en 36 milljónum árið áður og jókst óráðstafað eigið fé um 637 milljónir milli ára, sem skýrist að miklu leyti af samruna félagsins. Skuldir námu 312 milljónum í lok árs og jukust um 90 milljónir. Ekki var greiddur arður. Framkvæmdastjóri félagsins er Helgi Rúnar Óskarsson.