Útgáfa svokallaðra jöklabréfa (e. Glacier bonds) hefur aukist að nýju að sögn greiningadeildar Landsbankans.

Útgáfa bréfanna hófst í lok ágústmánaðar en tilkynnt var um 22 útgáfur að upphæð 52 milljarða króna í september og í október voru 14 útgáfur að upphæð 34 milljarða króna samtals. Heldur dró úr útgáfum í síðasta mánuði, samkvæmt greiningadeildinni en þá hafði gengi krónunnar styrkts töluvert samhliða þeim.

Í nóvember komu sjö útgáfur sem námu alls 26 milljörðum króna. Í þeim mánuði veiktist gengi krónunnar og hafði í síðustu viku sigið um 7% frá því í nóvemberbyrjun. Gengisveikingin og horfur á áframhaldandi hækkun stýrivaxta hefur því haft áhrif á útgáfu bréfanna svo að á síðustu tveimur vikum hafa bæst við 25 milljarðar króna í átta útgáfum jöklabréfa. Þar af var tilkynnt um tvær útgáfur í dag, samkvæmt greiningadeildinni.

Toyota Motor Credit Coropration, dótturfélag bifreiðaframleiðandans Toyota tilkynnti í morgun um útgáfu á skuldabréfi í íslenskum krónum en skammt er síðan fyrirtækið gaf út síðast út skuldabréf í krónum. Útgáfan nemur 5 milljörðum króna og hefur bréfið gjalddaga í júní 2008. Toyota hefur samkvæmt greiningadeildinni hæstu mögulegu lánshæfiseinkunn bæði hjá Moody's Investors Service (Aaa) og Standard & Poor's (AAA).

Það sem af er árinu er útgáfa jöklabréfa komin í tæplega 150 milljarða króna og er líftími bréfanna frá einu og upp í fimm ár.