Samhljómur virðist vera milli forsvarsmanna flokkanna að stóru kosningamálin verði efling velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfisins og bæta hag þeirra sem verst standi í samfélaginu, þó að áherslumunur sé á framkvæmdinni og hve langt flokkarnir vilji ganga nú. Þá benda kannanir til þess að erfitt gæti orðið að mynda næstu ríkisstjórn eftir kosningar.

Hugsanlega standi einungis þriggja eða fjögurra flokka stjórnir til boða og óvissa er um vilja til samstarfs milli margra flokka. „Það er mikið vantraust milli allra flokka, ég skal ekki segja óvild en mjög undarlegt andrúmsloft,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæð­isflokksins, vill horfa til þess að mynda tveggja flokka stjórn sé slíkt mögulegt. Miðað við nýlegar skoð­ anakannanir er eini möguleiki á slíku samstarfi milli Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna, og raunar alls ekki víst að flokkarnir tveir nái meirihluta þingsæta.

„Kannanir í dag segja voðalega lítið um það hvernig staðan verður í lok október. Það sýndi sig á síðasta ári að kannanir gáfu í besta falli vísbendingu um niðurstöðu kosninganna,“ segir Bjarni. „Fyrir kosningarnar þá munum við tala um að halda uppbyggingu landsins áfram, við höfum stórkostlegt tækifæri í höndunum til þess að nýta hagstæðar aðstæður í efnahagsmálum til bóta á öllum sviðum samfélagsins,“ bætir Bjarni við.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, bendir á að Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn hafi ekki náð saman um stjórnarsamstarf eftir síðustu kosningar. „Við stefnum á það að leiða stjórn sem er með félagshyggju að leið­ arljósi, sem er tilbúin að gera eitthvað raunverulega í að jafna kjörin á Íslandi,“ segir Katrín. „Það hefur nánast ekkert borið til tíð­ inda í þessum mánuðum sem ríkisstjórnin hefur starfað. Það var sam­ þykkt íhaldssöm fjármálaáætlun sem var samþykkt með mótatkvæð­ um allrar stjórnarandstöðunnar,“ segir hún.

Sósíalistar ráða ráðum sínum

Meðlimir Sósíalistaflokks Íslands íhuga enn framboð en stefnt er að því að taka endanlega ákvörðun um framboð um helgina. Áður höfðu Alþýðufylkingin og Dögun tilkynnt að þau stefni á framboð. Þá hafa Frelsisflokkurinn og Húmanistaflokkurinn gefið út að þeir muni ekki bjóða fram í kosningunum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.