Eins og Viðskiptablaðið greindi frá á dögunum þarfnast Strætó eins og hálfs milljarðs króna framlags frá eigendum sínum, sem eru sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins, til að mæta rekstrarvanda og bágri fjárhagsstöðu félagsins.

Fjárhagsstaða sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins hefur verið betri en nú. Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar, segir í skriflegu svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins að staða Strætó sé þung og hún geti ekki séð að sveitarfélögin séu aflögufær um bein aukin fjárframlög inn í rekstur Strætó. Rekstur sveitarfélaganna sjálfra sé nógu erfiður um þessar mundir.

Spurð hvort hún telji í ljósi þungrar stöðu Strætó ástæðu til að endurskoða rekstur félagsins, til dæmis með því að skerða þjónustu þess, segir Rósa ljóst að grípa þurfi til aðgerða. Bæði til að bregðast við bráðavanda sem nú sé unnið að og til að bæta reksturinn til lengri tíma.

„Núna eru afleiðingar Covid að setja stórt strik í reikninginn en að mínu mati þarf til dæmis að taka aftur upp tillögur um aukna útvistun í akstri. Það náðist ekki samstaða um að bjóða út stærri hluta en raun ber vitni. Þar stóð helst á stærsta hluthafanum í byggðasamlaginu [Reykjavíkurborg], þrátt fyrir úttekt á samanburði á kostnaði við eigin rekstur og útvistun þar sem ráðgjafar mæltu með frekari útvistun. Hefði þetta náðst í gegn má gera ráð fyrir að hagræðing fyrir hundruð milljóna króna hefði náðst í rekstrinum og fjárfestingu í nýjum vögnum o.fl. Ég tel að rekstur almenningssamgangna, Strætó og síðan Borgarlínu, þarfnist mjög gaumgæfilegrar skoðunar til framtíðar; hvaða markmiðum er raunhæft að ná bæði hvað þjónustu og notkun varðar, hver á kostnaðarþátttaka notenda að vera og hvað erum við tilbúin að setja mikið fjármagn í þennan rekstur? Þetta er að minnsta kosti ekki að ganga upp óbreytt,“ segir í skriflegu svari Rósu.

Í fjármálagreiningu á Strætó sem unnin var af ráðgjafarsviði KPMG kemur fram að Strætó útvisti um 50% af akstri til verktaka. Ef ákveðið yrði að auka það hlutfall væri hægt að draga verulega úr eða jafnvel sleppa fjárfestingu í nýjum vögnum. „Við aukna útvistun lækkar rekstrarkostnaður vegna eigin aksturs en á móti hækkar aðkeyptur akstur. Miðað við fyrri greiningar gæti falist í því ávinningur að útvista akstri í auknum mæli m.a. þar sem komist yrði hjá verulegri fjárbindingu í nýjum vögnum,“ segir meðal annars í greiningu KPMG.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.