Viðskiptakröfur Isavia ohf. jukust um 2,1 milljarð króna á árinu 2018 samkvæmt nýbirtum ársreikningi ríkisfyrirtækisins . Í árslok 2018 námu gjaldfallnar viðskiptakröfur 2,6 milljörðum króna en námu 1,7 milljörðum króna í árslok 2017. Þá hækka ógjaldfallanar viðskiptakröfur Isavia úr 2 milljörðum króna í 3,2 milljarða króna.

Innlendar viðskiptakröfur hækkuðu úr 2,96 milljörðum króna í 5,03 milljarða króna eða um ríflega tvo milljarða króna. Niðurfærsla Isavia á viðskiptakröfum jókst úr 132 milljónum í 251 milljón króna milli ára.

Morgunblaðið sagði frá því í september að Wow air skuldaði Isavia um tvo milljarða króna. Skúli Mogensen, eigandi Wow air gagnrýndi fréttaflutninginn og sagði Wow air aldrei hafa skuldað Isavia yfir tvo milljarða króna .

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, fetti fingur út í Isavia á aðalfundi Icelandair í byrjun mars. „Samkeppnisaðilar hafa fengið að safna upp skuldum á Keflavíkurflugvelli, sem skekkir verulega samkeppnisstöðu á markaði,“ sagði Bogi.

Fréttablaðið sagði frá því í vikunni að Wow air skilji nú alltaf eftir eina flugvél á Keflavíkurflugvelli sem hluta af samkomulagi við Isavia vegna skulda félagsins. Isavia hafi þá möguleika að kyrrsetja vélina á meðan greiðslu skulda er krafist. Forsvarsmenn Isavia og Wow air hafa ekki viljað tjá sig um málið.

Þá má búast við því að Isavia hafi tapað á gjaldþroti Primera Air í október ef marka má frétt Túrista um málið.