Veðsetningarhlutfall í atvinnuhúsnæði þróaðist til verri vegar á síðasta ári. Samanlögð fjárhæð útlána sem liggja yfir 90% veðsetningarhlutfalli jókst um tæplega helming. Mesta aukningin var á lánum til gististaða þar sem eftirstöðvar yfir 90% hlutfalli fjórfölduðust að raunvirði. Vanskil á lánum til gististaða jukust einnig mest á síðasta ári. Markaður með atvinnuhúsnæði tók við sér síðasta haust.

Vísitala raunverðs atvinnuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu lækkaði töluvert á fyrri hluta síðasta árs. Á fyrstu þremur mánuðum ársins lækkað hún skarpt eða um 12,2%. Á þessum tímapunkti stóð vísitalan í ríflega 76 stigum og hafði ekki verið lægri síðan í lok árs 2017. Vísitalan stóð í stað á milli fyrsta og annars ársfjórðungs en á seinni helmingi ársins rétti markaðurinn aðeins úr kútnum. Í desember var vísitalan komin í 84 stig, sem þýðir að raunverð atvinnuhúsnæðis lækkaði um 4,2% á síðasta ári. Hæst hefur vísitalan farið í ríflega 97 stig en það gerðist í júnímánuði 2019.

Þetta kemur fram í ritinu Fjármálastöðugleiki, sem Seðlabanki Íslands gaf út í síðustu viku. Þar segir að velta síðasta árs hafi verið 5% lægri að raunvirði en á árinu 2019. „Verðmyndun og velta á markaðnum röskuðust því mun minna 2020 en eftir fjármála-áfallið 2008,“ segir í ritinu en síðasta ár litaðist af heimsfaraldrinum sem geisað hefur.

757 milljarða útlán

Um síðustu áramót námu útlán viðskiptabanka með veði í atvinnuhúsnæði samtals 757 milljörðum króna, sem er 26% af heildarútlánum til viðskiptamanna. Útlán drógust saman um 3% að raunvirði á síðasta ári. Athygli vekur að útlán drógust saman til allra atvinnugreina utan gististaða, „þar sem hraður vöxtur undanfarinna ára hélt áfram og nam tæplega 17% að raunvirði,“ að því er segir í Fjármálastöðugleika.

Vanskilahlutföll hækkuðu úr 2,2% í 3,3% á árinu og er þá miðað við 90 daga vanskil samkvæmt lánaaðferð.

„Aukning vanskila varð mest á lánum til lánþega sem reka gististaði,“ segir í ritinu. „Þar hækkaði vanskilahlutfall úr 3,1% í 10,6% á árinu. Í árslok voru vanskil næst mest á lánum sem eru að mestu tryggð með iðnaðarog geymsluhúsnæði eða 6,3%. Í byggingar- og fasteignagreinum héldust vanskilahlutföll lág. Hið sama gildir um greinar sem helst nýta verslunar- og skrifstofuhúsnæði.

Má ekki mála stöðuna of dökkum litum

„Dreifing veðsetningarhlutfalla á lánum með veði í atvinnuhúsnæði þróaðist almennt til verri vegar frá fyrra ári og óvarin eða illa varin áhætta jókst nokkuð. Samanlögð fjárhæð þess hluta útlánanna sem liggur yfir 90% veðsetningarhlutfalli jókst um tæplega helming að raunvirði á síðasta ári. Hlutfallslega varð mest aukning af þessu tagi á lánum til gististaða, þar sem eftirstöðvar yfir 90% hlutfalli fjórfölduðust að raunvirði. Jafnframt er vægi atvinnuhúsnæðis sem veðandlags mest hjá skuldurum í þessari atvinnugrein en hótelbyggingar nema hjá þeim tæplega 90% af öllum framlögðum tryggingum. Áhætta tengd atvinnuhúsnæði jókst því mest í þessari atvinnugrein á árinu 2020 en fjárhæðirnar sem um ræðir eru hins vegar ekki mjög háar í samhengi við eiginfjárgrunn bankanna.“

Þrátt fyrir aukin vanskil og hækkun á veðsetningarhlutfalli hjá rekstraraðilum gististaða telja forsvarsmenn Seðlabankans að ekki megi mála stöðuna of dökkum litum.

„Þótt hún sé til marks um hnignandi útlánagæði endurspeglar hún einnig að bankakerfið var við upphaf faraldursins vel í stakk búið til að styðja aðþrengda atvinnugrein á borð við hótelrekstur með greiðsluhléum og lánsfjárfyrirgreiðslu en sveiflutengdri áhættu hafði verið nokkurn veginn haldið í skefjum í uppsveiflunni sem á undan fór. Jafnframt er hluti skuldaaukningar hótelgreinarinnar í formi stuðnings- og brúarlána sem njóta ríkisábyrgðar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .