Velta á fasteignamarkaði hefur aukist um 9% á fyrstu níu mánuðum ársins 2018 samanborið við fyrstu níu mánuði ársins 2017. Samtals nam veltan 299,4 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum núverandi árs en í fyrra nam hún 274,6 milljörðum. Þá fjölgaði kaupsamningum um 8,7% milli ára en fyrstu níu mánuði ársins 2017 voru þeir samtals 5.421 og árið 2018 hafði þeim fjölgað upp í 5.894. Þetta kemur fram í upplýsingum Þjóðskrár Íslands um mánaðarlega veltu og fjölda kaupsamninga á fasteignamarkaði, en þessar upplýsingar byggja á þinglýstum kaupsamningum fasteigna. Þjóðskrá flokkar fasteignirnar niður í þrjá flokka: fjölbýli, sérbýli og aðrar eignir.

Fyrstu þrjá mánuði ársins 2018 dróst veltan og fjöldi kaupsamninga saman miðað við árið áður. Mest dróst hún saman í febrúar eða um 13% milli ára. Veltan dróst einnig lítillega saman í júní eða um 0,1% milli ára, sem og í júlí þegar veltan dróst saman um 3% milli ára. Aðra mánuði jókst veltan og mest jókst hún um 55% í september á milli ára. Þá jókst veltan um 48% á milli ára í ágúst. Fjöldi kaupsamninga þróaðist á svipaðan hátt og veltan. Fyrstu þrjá mánuði ársins 2018 dróst fjöldi þeirra saman, mest um 23% í febrúar. Fjöldinn dróst svo einnig mjög lítillega saman í júlí eða um 0,5%. Hina mánuðina fjölgaði kaupsamningunum og fjölgaði þeim hlutfallslega mest í apríl eða um 52%.

Meðalverð á hvern kaupsamning er það sama á fyrstu níu mánuðum áranna 2017 og 2018, eða 51 milljón króna.

Íbúðaverð hækkað minna en áður

Ólafur Heiðar Helgason, hagfræðingur á húsnæðissviði Íbúðalánasjóðs, segir að íbúðaverð hafi áfram farið hækkandi það sem af er ári en það hafi þó hækkað minna en áður.

„Velta á fasteignamarkaði fer annars vegar eftir íbúðaverði og hins vegar fjölda samninga. Í fyrra fækkaði kaupsamningum hér á höfuðborgarsvæðinu tímabundið á sama tíma og markaðurinn einkenndist af miklum verðhækkunum. Á þessum tíma voru íbúðir í auknum mæli að seljast á hærri upphæðir en uppsett verð og meðalsölutími styttist til muna. Þetta var á þeim tíma sem það heyrðust sögur af því að fólk væri jafnvel að yfirbjóða í íbúðir strax á opnum húsum. Af tölunum núna má ráða að þetta hafi minnkað til muna og færri íbúðir eru að seljast á yfir ásettu verði. Markaðurinn virðist vera að þróast með mun eðlilegri takti á flesta mælikvarða.

Varðandi framhaldið ræðst íbúðaverð almennt til lengri tíma litið af nokkrum þáttum. Þar ber fyrst að nefna efnahagsþróunina. Það eru flestir greiningaraðilar sammála um að það sé að hægja á í hagkerfinu og það er að hægjast talsvert á vexti í útflutningi og einkaneyslu. Á sama tíma virðist verðbólguþrýstingur á suma mælikvarða vera farinn að aukast og verðbólga er einn af þeim þáttum sem hafa áhrif á vaxtastig og vextir hafa svo áhrif á alla eignamarkaði, þar með talið húsnæðisverð.

En aftur á móti hefur verið að koma inn talsvert mikið magn af nýbyggingum og búist er við því að sú þróun haldi áfram. Íbúðafjárfesting jókst mikið á fyrri hluta ársins og það er ekki ólíklegt að það muni halda áfram að koma inn á markaðinn talsvert mikið af nýjum íbúðum sem eru þá að meðaltali á hærra fermetraverði en aðrar íbúðir. Það er eitt sem getur valdið því að veltan verði áfram há á íbúðamarkaði. Allt ofantalið eru stóru þættirnir sem ég myndi segja að skipti máli núna," segir Ólafur.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .