Velta í dagvöruverslun jókst um 7,2% í mars síðastliðnum miðað við sama mánuð árið áður á föstu verðlagi. Á breytilegu verðlagi nam hækkunin 14%. Á milli mánaðanna febrúar og mars jókst velta dagvöruverslana um 13,1% á föstu verðlagi og um 13,8% á breytilegu verðlagi. Þetta kemur fram á vef Rannsóknarseturs verslunarinnar á Bifröst.

Þar segir að skýringuna á þessari miklu veltuaukningu milli mánaða megi líklega rekja til þess að páskarnir voru í mars. Árstíðarleiðrétt hækkun á veltu dagvöru milli febrúar og mars nam 0,9% á föstu verðlagi. Verð á dagvöru í mars hækkaði um 6,4% frá því í mars í fyrra.

Meira áfengi og minni skór

Sala áfengis jókst um 4,4% í mars miðað við sama mánuð árið áður á breytilegu verðlagi og um 1,5% föstu verðlagi. Í mars var velta áfengisverslunar 4,6% meiri en í febrúar þar á undan miðað við breytilegt verðlag og á föstu verðlagi nam aukningin 3,9%. Verð á áfengi hækkaði um 2,3% frá því í mars í fyrra.

Samdráttur varð í fata- og skóverslun á milli ára. Fataverslun dróst saman um 13% í mars miðað við sama mánuð í fyrra á föstu verðlagi og um 8,7% á breytilegu verðlagi. Veltan jókst um 9,4% í mars miðað við mánuðinn þar á undan á breytilegu verðlagi og um 2,8% á föstu verðlagi.

Skóverslun minnkaði í mars um 30,4% á milli ára á föstu verðlagi og um 3,2% ef miðað er við febrúar þar á undan. Verð á fötum í mars hækkaði um 5% frá því í mars í fyrra og verð á skóm hækkaði um 11,6% á sama tímabili, samkvæmt verðmælingu Hagstofu Íslands.

Verð á húsgögnum nánst óbreytt

Í mars jókst velta í húsgagnaverslun um 15,9% á breytilegu verðlagi miðað við febrúar á undan og um 13,4% á föstu verðlagi.

„Athyglisvert er að verð á húsgögnum hefur nánast haldist óbreytt frá því í sumar á meðan talsverðar hækkanir hafa orðið á öðrum vörum, sérstaklega síðustu mánuði,“ segir í skýrslu Rannsóknarseturs.

Samanlögð velta í þeim flokkum smásöluverslunar sem mælingar Rannsóknaseturs verslunarinnar ná til jókst um 12,3% á milli mars á þessu ári og mars í fyrra á verðlagi hvers árs.

„Helsta skýring þess að velta í dagvöruverslun jókst á milli febrúar og mars er að páskarnir í ár voru í mars sem felur í sér meiri matarinnkaup en í venjulegum mánuði. Í fyrra voru páskarnir í apríl og því er eðlilegt að marsveltan í ár hafi verið meiri en í fyrra. Þó töluverðar verðhækkanir hafi orðið á matvælum að undanförnu hefur velta dagvöruverslana hækkað meira en sem verðhækkunum nemur. Ástæðuna fyrir því að fata- og skóverslun dróst saman milli ára má sennilega rekja til þess að færri söludagar voru í mars í ár en í fyrra vegna páskanna. Einnig gæti verið að veðurfar marsmánaðar hafi dregið úr áhuga fólks á að klæða sig upp fyrir vorið,“ segir í skýrslu Rannsóknarseturs.