Velta í dagvöruverslun jókst um 10,9% í júní síðastliðnum miðað við sama mánuð í fyrra, á breytilegu verðlagi. Á föstu verðlagi og árstíðarleiðrétt nam hækkunin 16,6%. Á sama tímabili lækkaði verðlag á dagvöru um 2% samkvæmt dagvöruhluta neysluverðsvísitölu Hagstofu Íslands. Ástæða veltuaukningarinnar er því ekki hærra verðlag segir í frétt frá Rannsóknarsetri verslunarinnar.

Velta í dagvöruverslunum jókst á milli mánaðanna maí og júní um 0,8%. Sala á áfengi jókst mikið milli ára, eða um 13% á breytilegu verðlagi og 13,6% á föstu verðlagi. Þá var einnig vöxtur í fata- og skóverslun á milli mánaðanna maí og júní. Velta fataverslunar jókst um 3,4% og skóverslunar um 5,7% milli mánaða. Samanlögð velta í þeim flokkum smásöluverslunar sem mælingar Rannsóknaseturs verslunarinnar ná til jókst um 3,8% á milli maí og júní.

Hluti af skýringu á mikilli söluaukningu í mat og áfengi í júní er að í ár voru fimm laugardagar í júní en í fyrra voru þeir fjórir. Þá var helgin um mánaðarmótin júní/júlí mikil ferðamannahelgi og landsmenn gerðu vel við sig í mat og drykk. Þá hefur gott veður sjálfsagt haft töluverð áhrif. Velta í dagvöruverslun hefur aukist um 16,5% á tímabilinu janúar - júní 2007 og í áfengi um 66%. Áfengissala í júní var óvenjumikil og jafnaðist á við söluaukningu í tengslum við verslunarmannahelgar undanfarin ár, enda vegur áfengissala mun meiri nú en venjulega í smásöluvísitölunni.

Samkvæmt mælingu Hagstofunnar lækkaði verð á dagvöru um 0,3% milli maí og júní og hefur haldist nokkuð stöðugt frá því að virðisaukaskattur á matvæli var lækkaður og vörugjöld felld niður þann 1. mars sl., að undanskildum apríl þegar verð á dagvöru lækkaði um 0,6%, en hækkaði svo aftur mánuðinn eftir.


Aukin velta í smásöluverslun kemur heim og saman við aukna greiðslukortaveltu landsmanna. Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar var kreditkortavelta heimilanna 17,8% meiri á tímabilinu janúar - maí miðað við sama tímabil í fyrra. Á sama tíma dróst debetkortavelta saman um 3,5%. Þessar vísbendingar gefa tilefni til að ætla að einkaneysla sé að aukast fremur en að dragast saman eins og endurskoðuð þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins segir til um.