*

miðvikudagur, 27. október 2021
Innlent 4. maí 2021 07:02

Mikil veltuaukning XO í faraldrinum

Velta veitingastaðarins jókst um 21% á síðasta ári þrátt fyrir sóttvarnatakmarkanir. Veltan hefur aukist um 41% það sem af er ári.

Andrea Sigurðardóttir
Gunnar Örn Jónsson, framkvæmdastjóri veitingastaðarins XO.
Aðsend mynd

Velta XO veitingastaðar í Smáralind jókst um 21% á síðasta ári þrátt fyrir þær fjöldatakmarkanir sem voru í gildi megnið af árinu. Heildarvelta félagsins nam 217,5 milljónum króna. Félagið hagnaðist um 15,8 milljónir króna en rekstrarhagnaður (EBITDA) nam 21,3 milljónum króna.

Árið 2021 hefur farið vel af stað en fyrstu fjóra mánuði þessa árs hefur meðalaukning veltu verið um 40,6% frá sama tímabili á síðasta ári, en í apríl nam aukningin 42,9%. Áætlanir félagsins gera ráð fyrir 253 milljóna króna veltu á þessu ári, eða 16,3% aukningu milli ára, og 30 milljóna króna rekstrarhagnaði.

"Um miðjan mars í fyrra stóðum við skyndilega frammi fyrir algjörri óvissu vegna faraldursins. Við ákváðum að bregðast við með því að lækka verð á öllum réttum auk þess að bjóða ókeypis heimsendingu þegar pantað var fyrir ákveðna upphæð. Þessi ákvörðun reyndist vel, við náðum að halda veltunni þokkalegri í mars og apríl í fyrra, þó svo að veltan í mars 2020 hafi lækkað töluvert frá fyrra ári. Við fengum gríðarlega jákvæð viðbrögð við þessum ákvörðunum okkar og marga nýja viðskiptavini, bæði einstaklinga og fyrirtæki,"  segir Gunnar Örn Jónsson, framkvæmdastjóri XO, og bætir við að fyrirtækja- og veisluþjónusta XO hafi verið mjög vinsæl á undanförnum árum.

Mikil eftirspurn eftir hollari skyndibita

 „Ballið byrjaði fyrir alvöru í maí á síðasta ári en það var brjálað að gera alveg þangað til samkomutakmarkanir voru hertar verulega á ný í október, en yfir umrædda 5 mánuði nam mánaðarleg veltuaukning frá fyrra ári um 40%." segir Gunnar Örn.

Veitingastaðir hafa þurft að lifa við ýmiss konar sóttvarnatakmarkanir frá því síðasta haust, áskorun sem rekstraraðilum hefur gengið misvel að yfirstíga. Gunnar Örn rekur velgengni XO meðal annars til aukinnar eftirspurnar eftir hollari skyndibita.

„Fólk er almennt að huga meira að heilsu og hollum lifnaðarháttum á þessum viðsjárverðu tímum veirufaraldursins. Vinsældir XO eru þó ekki síður tilkomnar vegna þess að við bjóðum upp á góðan mat, góða þjónustu og stöðugleika í gæðum. Eins og flestir vita stendur XO fyrir „hugs & kisses" en það er skírskotun í þann metnað og alúð sem XO hefur frá upphafi lagt í eldamennskuna, þjónustuna og fyrirtækið í heild sinni. Öll umræða og sú vitundarvakning sem á sér stað um heilsu og holla næringu hjálpar mikið til og eykur eftirspurn eftir okkar vörum."

Þau hjá XO trúa því stöðugleiki í gæðum sé lykilatriði í bland við sanngjörn verð. „Fólk kann að meta stöðugleika í gæðum og viðskiptavinir koma aftur og aftur vegna ánægju sinnar með vörur og þjónustu XO. Verðið hefur líka sitt að segja en allir réttir XO eru enn undir tvö þúsund krónum þrátt fyrir hráefnis- og launahækkanir undanfarna mánuði. Við erum óendanlega þakklát okkar traustu viðskiptavinum, enda er fyrirtæki ekkert án ánægðra viðskiptavina. Ánægðir viðskiptavinir gleðja okkur mest og þeir eru langbesta auglýsingin," segir Gunnar Örn að lokum. 

Stikkorð: Smáralind XO Gunnar Örn Jónsson Covid