Vísitala neysluverðs í desember hækkaði um 0,46% frá fyrri mánuði, en síðastliðna 12 mánuði hefur vísitalan hækkað um 3,9%. Húsnæðisliður vísitölunnar hækkaði um 1,6% í desember frá fyrri mánuði. Hins vegar lækkaði eldsneyti um 1% þrátt fyrir hækkandi olíuverð á heimsmarkaði í nóvember. Fasteignamarkaðurinn er enn sem fyrr helsti orsakavaldur verðbólguþrýstings, en rekja má tæplega 2/5 hluta vísitöluhækkunar síðustu 12 mánaða til verðhækkunar á fasteignum. segir í Hálffimm fréttum KB banka.

Verðbólguhraðinn um þessar mundir er rétt undir efri þolmörkum verðbólgumarkmiðsins, sem eru 4%, en verðbólgumarkmiðið sjálft er 2,5%. "Ljóst er því að ef hækkun fasteignaverðs heldur áfram með viðlíka hraða er hætta á því að 12 mánaða verðbólguhraði geti farið upp fyrir þolmörkin á næstu mánuðum. Það er þó aðeins skammtímaáhætta þar sem áhrif lægra olíverðs og hærra gengis krónunnar hljóta að lækka verðbólguhraðann þegar kemur fram yfir áramótin," segir í Hálffimm fréttum KB banka.