Elkem Ísland er kísiljárnframleiðandi á Grundartanga í Hvalfjarðarsveit sem framleiðir kísiljárn og kísilafurðir í yfir 150 vöruflokkum.

Verksmiðjan er næststærsti framleiðandi kísiljárns á alþjóðavísu, með árlega framleiðslugetu upp á um 120 þúsund tonn, en kísiljárn er frumhráefni sem notað er við framleiðslu á stáli og er allt að 75% hreinn kísill. Verksmiðjan hefur verið starfrækt frá árinu 1979 og er í eigu norska stórfyrirtækisins Elkem.

Gestur Pétursson, framkvæmdastjóri Elkem Ísland, segir reksturinn vera í lægð um þessar mundir vegna aðstæðna á kísilmörkuðum. Fyrirtækið sé hins vegar að takast á við spennandi verkefni í vöruþróun og fjárfestingum.

Eitt versta ár í háa herrans tíð

Árið hjá verksmiðjunni hefur verið eitt það versta í langan tíma vegna ástandsins á kísilmörkuðum undanfarið. „Markaðsverð á kísilafurðum voru nokkuð góð þar til í ágúst 2015, þegar verðin lækkuðu talsvert. Nú hafa verðin náð meiri stöðugleika, en þau hafa komið hart niður á rekstrinum,“ segir Gestur. Helst hafi aukið framboð kísilafurða og aukin sérvöruframleiðsla í stað framleiðslu á staðalvörum dregið markaðsverðin niður.

Aukið vægi sérhæfðra kísilafurða

Undanfarin ár hefur meginstarfsemi Elkem Íslands verið framleiðsla kísiljárns, en Gestur segir fyrirtækið hafa breytt áherslum í framleiðslu vegna aukinnar markaðseftirspurnar eftir sérhæfðum kísilafurðum.

Elkem Ísland framleiðir sérstaka kísilafurð, sem notuð er til að auka orkunýtingu, meðal annars í rafbílum, vindmyllum og öllum orkusparandi heimilisraftækjum. Vöruflokkunin heitir High Purity Ferrosilicon. Afurðin er notuð í framleiðslu sérhæfðs rafstáls sem dregur verulega úr viðnámi og þar með orkunotkun, en verksmiðjan á Grundartanga framleiðir um 12-15% af heimsframleiðslu þessarar sérhæfðu afurðar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .