Í ágúst voru íbúðalán lífeyrissjóða um 300 milljarðar króna, sem er aukning um 130 milljarða á tveimur árum. Guðmundur Sigfinnson hagfræðingur á húsnæðissviði Íbúðalánasjóðs segir að þetta bendi til að mörg heimili hafi endurfjármagnað lán sín með ódýrari lánum frá lífeyrissjóðunum.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í fyrri mánuði eru lánveitingar lífeyrissjóða takmarkaðri en banka, en í lögum um lífeyrissjóði kemur fram að veðhlutfall skuldabréfa með veði í fasteign, það er fasteignalán, megi ekki vera umfram 75% af markaðsvirði íbúðarhúsnæðis. Því til viðbótar hafa lífeyrissjóðirnir auk Íslandsbanka þó stigið á bremsuna með frekari takmörkunum á veðhlutfalli eins og Viðskiptablaðið greindi frá .

Lífeyrissjóðir með fimmtung íbúðarlána

Guðmundur bendir á að í ágúst 2015 hafi hlutur lífeyrissjóða í íbúðalánum verið um 12% en sé nú um 20% að því er Morgunblaðið greinir frá. Á sama tíma hafi hlutur Íbúðalánasjóðs lækkað úr 40% í 26% en hlutur bankanna aukist úr 48% í 54%.

„Ný útlán eru nú að stærstu leyti hjá lífeyrissjóðum og bönkum,“ segir Guðmundur sem segir lífeyrissjóðina hafa byrjað að lána óverðtryggð íbúðalán í árslok 2015 meðan Íbúðalánasjóður láni einungis verðtryggð.

Viðskiptablaðið hefur einnig fjallað ítarlega um mikla aukningu í hlut óverðtryggðra íbúðalána en ef horft er til fyrstu átta mánuða ársins námu ný útlán lífeyrissjóðanna 95 milljörðum króna. Árið 2014 voru þau hins vegar 11,7 milljarðar, 21,7 milljarðar árið 2015 en 89,2 milljarðar á síðasta ári.

Lánuðu áður í gegnum Íbúðarlánasjóð

Gunnar Baldvinsson framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins segir að útlán sjóðanna séu komin til að vera þó ekki sé hægt að útiloka að vægi bankanna aukist á ný. „Það sem hefur breyst er að lífeyrissjóðir eru oftar fyrsti valkostur lántaka,“ segir Gunnar.

„Sjóðirnir hafa að einhverju leyti tekið við hlutverki Íbúðarlánasjóðs. Þetta er í sjálfu sér formbreyting. Áður fjármögnuðu sjóðirnir lánin með kaupum á skuldabréfum útgefnum af Íbúðarlánasjóði. Nú eru þeir oftar að lána milliliðalaust.“