Rekstrartekjur ríkissjóðs jukust um 17,7% á milli fyrsta ársfjórðungs 2005 og 2006 og er nú 96,5 milljarðar króna, segir greiningardeild Landsbankans sem skoðað hefur áætlaðar tölur frá Hagstofunni um fjármál hins opinbera á fyrsta ársfjórðungi 2006.

?Rekstrarútgjöld hafa einnig aukist en ekki jafn mikið og tekjurnar og eru þau ásamt fjárfestingu en án afskrifta 78,0 milljarðar króna sem er 6,4% aukning frá sama tímabili í fyrra. Tekjujöfnuður fyrsta ársfjórðungs hjá ríkissjóði er því 18,5 milljarðar króna samanborið við 8,7 milljarðar króna á sama tímabili í fyrra og hefur tekjujöfnuðurinn aukist í 19,2% af rekstrartekjum og er tekjujöfnuðurinn 1,7% af áætlaðri landsframleiðslu ársins í heild. Sé hinsvegar einungis miðað við landsframleiðslu á fyrsta ársfjórðungi er tekjujöfnuðurinn jákvæður um 7,2%," segir greiningardeildin.

Áætlaðar rekstrartekjur sveitafélaganna á fyrsta ársfjórðungi eru 27,9 milljarðar króna sem er 19,4% aukning miðað við sama tímabil í fyrra en rekstargjöld með afskriftum (án fjárfestinga) námu 27,8 milljörðum króna og er það 22,4% aukning, frá sama tímabili.
?Fjárfesting er nokkru meiri en afskriftir og verður tekjujöfnuður því neikvæður um 2,3 milljarðar króna sem er lakari útkoma en á sama tímabili í fyrra þegar hann var neikvæður um 1,6 milljarðar króna. Samanlagt er tekjujöfnuður hins opinbera 16,2 milljarðar króna miðað við 8,3 milljarðar króna á sama tímabili í fyrra. Sem hlutfall af rekstrartekjum er tekjujöfnuður ársfjórðungsins 13,0% miðað við 7,8% í fyrra og hann 1,5% af landsframleiðslu ársins í heild (6,3% miðað við landsframleiðslu á fyrsta ársfjórðungi)," segir greiningardeildin.

Halli hjá sveitarfélögum

Greiningardeildin segir mikil efnahagsumsvif skila auknum tekjum til hins opinbera í formi skatta. ?Sífelld bætt afkoma hins opinbera, sem drifin er áfram af tekjuafgangi ríkissjóðs, er gleðiefni á þenslutímum. Sveitarfélögin halda hins vegar uppteknum hætti undanfarinna missera með hallarekstri. Þegar litið er til útgjaldaaukningar frá ársbyrjun 2005 hafa útgjöld sveitarfélaga aukist um 18,9%, á meðan útgjöld ríkissjóðs drógust saman um 0,2% á föstu verðlagi (staðvirt með verðvísitölu samneyslunnar)," segir greiningardeildin.

Greiningardeildin segir að borið saman við hagvöxt síðasta árið upp á 5% kemur í ljós að sveitarfélögin voru þensluhvetjandi á meðan ríkissjóður þensluletjandi. ?Samanlagt uxu útgjöld hins opinbera um 4,4% eða ívið minna og hagvöxturinn sem felur í sér að hið opinbera sló lítillega á þenslu hvað útgjöld varðar. Þetta undirstrikar mikilvægi þess að samstarf náist milli ríkis og sveitarfélaga um aðgerðir til að ná betri tökum á heildarútgjaldaþróun hins opinbera, sérstaklega við núverandi aðstæður þegar draga þarf saman seglin í efnahagslífinu."