Warren Buffett, stjórnarformaður Berkshire Hathaway, sagði um helgina að tilboð fjölmiðlajöfursins Rupert Murdoch og fjölmiðlasamsteypu hans, News Corp, í Dow Jones væri til marks um aukinn áhuga auðmanna á því að eignast fjölmiðla og að aðrir þættir en hagnaðarvon stýrðu þeim áhuga. Á dögunum bauð Murdoch fimm milljarða Bandaríkjadala í Dow Jones. Bancroft-fjölskyldan, sem fer með ráðandi hlut í Dow Jones, hafnaði tilboðinu þrátt fyrir að það sé um sextíu prósentum hærra en markaðsverð fyrirtækisins. Tilboðið þykir það hátt að ekki er útséð með hvort að Murdoch takist að eignast fyrirtækið á endanum.

Buffett lét þessi ummæli falla um helgina á ársfundi Berkshire Hathaway. Hann sagðist viss um að Murdoch væri reiðubúinn að viðurkenna að það væru fleiri þættir en arðsemisvæntingar sem stýrðu áhuga hans á Wall Street Journal, sem er flaggskip útgáfustarfsemi Dow Jones. Einnig kom fram í máli Buffetts að slíkur áhugi einskorðaðist ekki við Murdoch: Hann telur að auðmenn séu í auknum mæli reiðubúnir til þess að fjárfesta í ákveðnum fjölmiðlum vegna áhrifa þeirra, dagskrárvalds og virðingar. Berkshire Hathaway hefur fjárfest í fjölmiðlum og á hluta bæði í Buffalo News og The Washington Post.

Á ársfundinum ræddi Buffett um hugsanlegan arftaka sinn hjá Berkshire Hathaway og upplýsti meðal annars að sex hundruð manns hafi sótt um að feta í fótspor hans er hann lætur af störfum. Hann sagðist vilja ráða fjóra hátt setta sjóðsstjóra og láta hvern og einn stýra um fimm milljörðum Bandaríkjadala og láta frammistöðuna skera um hver sé verðugastur til þess að setjast í stól hans. Buffett gegnir bæði stöðu aðalframkvæmdastjóra og aðalfjárfestis Berkshire Hathaway en hann hefur sagt að hann vilji ekki einn og sami maðurinn gegni stöðunum tveim eftir að hann hættir. Á ársfundinum tjáði hann fundarmönnum að hann hafi augastað á þremur líklegum arftökum hans á stól aðalframkvæmdastjóra en þeir eru innanbúðarmenn hjá Berkshire Hathaway.

Á ársfundinum fór Buffett um víðan völl í máli sínu. Hann gagnrýndi "rafmagnshjörð" þeirra sem stýra vogunaraflssjóðum og sagði að síkvikar stöðutökur þeirra vera til marks um leik þar sem enginn stendur uppi sem sigurvegari á endanum. Hann gerði lítið úr þeim hræringum sem átt hafa sér stað á markaði með fasteignalán til þeirra einstaklinga sem hafa slæma skuldastöðu (e. subprime lending). Hann sagði bæði lánin og lántökuna vera "heimska" og telur að hræringar á þeim markaði muni ekki smita út frá sér. Buffett sendi frá sér viðvörunarorð: Hann sagði góðærið í rekstraumhverfi bandarískra fyrirtækja kynni að enda skyndilega vegna breytinga á stjórnmála- og fjármálaáhættu.