Nýjar leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja komu út í vikunni en þetta er í fimmta skipti sem þær eru gefnar út. Leiðbeiningarnar eru gefnar út á vegum Viðskiptaráðs, Samtaka atvinnulífsins og Kauphallarinnar og er meginmarkmið þeirra að bæta stjórnarhætti með því að skýra hlutverk og ábyrgð stjórnenda og auðvelda þeim að rækja störf sín. Leiðbeiningarnar hafa verið endurskoðaðar í hverri útgáfu en að sögn Frosta Ólafssonar, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, eru helstu breytingarnar á milli ára formbreytingar sem einfalda leiðbeiningarnar og aukin áhersla á að skýra betur hvernig stjórnendur geta vikið frá einstökum efnisatriðum leiðbeininganna og útskýrt hvernig skuli skýra frávik frá þeim.

„Það hefur verið í gegnum tíðina þannig að þeim sem nota leiðbeiningarnar hætti til að nota þær of bókstaflega, að þeir nýti þær sem reglur en ekki leiðbeiningar,“ segir Frosti um breytingarnar og bætir við að uppsetning leiðbeininganna hafi einnig tekið breytingum. „Við erum að draga í sundur tilmælin annars vegar og skýringar hins vegar til þess að gera leiðbeiningarnar notendavænni. Síðan höfum við stytt þær og fækkað ákvæðum sem talin eru óþörf þannig að þetta sé hnitmiðaðra. Það er einnig búið að bæta við talsverðu efni varð- andi tilnefningarnefndirnar. Menn eru í auknum mæli farnir að veita þeim kosti athygli, þar sem skipuð er nefnd sem kemur með tillögu að stjórn. Við færðum samhliða því tilnefningarnefndina undir fyrsta kaflann sem fjallar um hluthafana vegna þess að hún fellur beint undir hluthafafund,“ segir Frosti.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .