*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 7. júlí 2016 13:24

Aukinn áhugi á íslenskum bókmenntum

Áhugi umheimsins á Íslandi hefur heldur betur vaknað í kjölfar árangurs landsliðsins í Evrópumótinu í fótbolta.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Áhugi á öllu sem íslenskt er virðist vera viðvarandi í fjölmiðlum heimsins nú eftir glæsta för íslenska karlalandliðsins á Evrópumótinu er lokið. Breska blaðið Guardian fjallar um aukna athygli sem íslenskar bókmenntir hafa fengið í kjölfarið.

Útgefendur í Suður-Kóreu og Taiwan sýna áhuga

Talar blaðið meðal annars við Egil Örn Jóhannson hjá Forlaginu um aukinn áhuga bæði lesenda á bókmenntunum og erlendra bókaútgefenda um að fá þýðingarrétt. Nái athyglin jafnvel út fyrir Evrópu og Bandaríkin, alla leið til útgefenda í Suður Kóreu og Taiwan, en félagið selur fjölda rétta til þýðinga á hverju ári.

„Auðvitað vilja útgefendur og lesendur vita meira um landið eftir glæstan árangur fótboltalandliðsins, og ein besta leiðin til að kynnast landi, og íbúum þess er í gegnum bókmenntir þess, svo það er mjög skiljanlegt, þar sem landsliðið og stuðningsmenn þess voru áberandi í fjölmiðlum heimsins í nokkrar vikur,“ sagði hann.

Meira en 12 milljón eintök

Vinsælasti höfundur félagsins er Arnaldur Indriðason, en Egill Örn segir marga aðra höfunda vera að ná árangri, bæði hér heima og erlendis en „Hann, myndi ég segja, er einn besti glæpasagnahöfundur Skandinavíu og hefur hann verið virkilega vinsæll...hann hefur selt meira en 12 milljón eintök út um allan heim.“

Eftirspurnin sé mest eftir skáldsögum, en hann nefnir meðal annars Sögu bláa hnattarins eftir Andra Snæ sem fékk aukna athygli vegna forsetaframboðsins, en athyglin sé „sérstaklega á titlum sem eru mjög íslenskir, svo lesendurnir geti á einhvern hátt upplifað hvernig Ísland og Íslendingar séu.“

Jafnframt nefnir hann að alþekkt sé á Íslandi að allir Íslendingar hafi annað hvort skrifað bók eða langi til að skrifa bók. Hér má lesa greinina í Guardian.