*

mánudagur, 8. mars 2021
Erlent 23. febrúar 2021 08:07

Áhugi á minni fyrirtækjum eykst vestanhafs

Væntanlegir aðgerðarpakkar Biden ríkisstjórnarinnar og bóluefnadreifing ýta undir hlutabréfaverð minni fyrirtækja.

Ritstjórn
Hlutabréf Macy's hafa hækkað um rúmlega 170% frá því í lok september síðastliðnum.

Hlutabréf minni fyrirtækja hafa hækkað talsvert meira en gengi stærri fyrirtækja í Bandaríkjunum það sem af er ári. Svo virðist sem að væntanlegir aðgerðarpakkar Biden ríkisstjórnarinnar og bóluefnadreifing hafi áhrif á væntingar markaðsaðila. 

Russell 2000 vísitalan, sem inniheldur minnstu 2000 fyrirtækin í Russell 3000 vísitölunni, hefur hækkað um 15% í ár. Á sama tíma hefur S&P 500 vísitalan hækkað um 4%. Munurinn á vísitölunum tveimur frá ársbyrjun til 19. febrúar hefur ekki verið meiri frá árinu 2000, samkvæmt umfjöllun WSJ.

Minni fyrirtæki (e. small caps) fylgja sínum hagkerfum meira en þau stóru (e. large caps) sem fá meiri tekjur erlendis. Iðnaðir sem eru nátengdari hagkerfinu, líkt og orkuiðnaður, hrávörumarkaðir og bankageirinn vega töluvert meira í Russell 2000 vísitölunni en í vísitölum sem innihalda stærstu fyrirtækin. 

Meðal þeirra fyrirtækja sem hafa hækkað mest eru: Plug Power, sem þróar vetnis efnarafalskerfi (e. hydrogen fuel cell systems), skyndibitakeðjan Red Robin Gourmet Burgers og smásalinn Macy‘s. Þessi þrjú fyrirtæki hafa meira en tvöfaldast að virði á síðustu sex mánuðum og hækkað um meira en 30% árið 2021.