*

mánudagur, 23. nóvember 2020
Innlent 28. júlí 2017 09:18

Aukinn áhugi á óverðtryggðum lánum

Algengara er nú að lántakendur kjósi blönduð íbúðalán og greiði hraðar.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Síðastliðnar vikur og mánuði hefur það færst í aukana að lántakendur kjósi óverðtryggð íbúðalán samhliða lækkandi vöxtum. Í úttekt Morgunblaðsins kemur fram að vinsældir óverðtryggðra íbúðalána gætu aukist enn frekar á næstu mánuðum sér í lagi ef að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákveður að lækka stýrivexti. 

Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, segir í samtali við Morgunblaðið að þau hafa orðið vör við talsvert aukinn áhuga á óverðtryggðum lánum. „Lækkandi vextir ýta á það en að sama skapi hafa verðtryggðu lánin verið mjög hagstæð í lágri verðbólgu,“ segir hann. Gunnar bætir við að hann telur það mjög jákvætt að fólk treysti sér frekar í óverðtryggðu lánin því þau greiðast niður hraðar. Hjá Almenna lífeyrissjóðnum hefur hlutfall nýrra óverðtryggðra lána af heildarfjárhæð veittra lána aukist umtalsvert. Í maí 2015 var hlutfallið 7,5% en í maí 2016 hafði það hækkað upp í 23%. Í maí 2017 var hlutfallið komið upp í 30%. 

Bogi Hannesson, vörustjóri og útibússtjóri íbúðalána hjá Íslandsbanka, segir að hjá Íslandsbanka hefur hlutfall nýrra óverðtryggðra íbúðalána af heildarfjárhæð veittra íbúðalána verið nokkuð breytilegt undanfarin ár en hefur aukist undanfarna mánuði. Þannig var hlutfallið 17% á öðrum ársfjórðungi síðasta árs samanborið við 28% á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Þó var hlutfallið á fyrsta og þriðja ársfjórðungi 2014, 47%. „Ef að stýrivextir lækka meira þá gætum við séð lægstu óverðtryggðu vexti á húsnæðislánum sem sést hafa hérlendis frá því að almennt framboð á óverðtryggðum húsnæðislánum kom á markaði í þeirri mynd sem við þekkjum í dag,“ segir Finnur Bogi.