Hagnaður Bank of America jókst töluvert á öðrum ársfjórðungi frá sama tímabili á síðasta ári og nam nú 5,32 milljörðum dala. Fjárhæðin jafngildir 715 milljörðum íslenskra króna. Wall Street Journal greinir frá uppgjöri bankans.

Á sama tíma í fyrra nam afkoma bankans 2,29 milljörðum dala og hefur bankinn því meira en tvöfaldað hagnaðinn milli ára. Tekjur bankans námu nú 22,35 milljörðum dala en voru 21,96 milljarður í fyrra.

Bank of America er næststærsti banki Bandaríkjanna miðað við eignir, en lagadeilur hafa haft þónokkur áhrif á afkomu fyrirtækisins að undanförnu. Slíkt er hins vegar að baki og því útlit fyrir að bjartara sé framundan í afkomutölum bankans.