Hagnaður af rekstri Hamborgarabúllu Tómasar ehf. nam í fyrra 27,7 milljónum króna, en var rétt rúm 21 milljón króna árið 2014. Þetta kemur fram í ársreikningi fyrirtækisins. Reikningurinn er samandreginn og sést því ekki velta fyrirtækisins, en rekstrarhagnaður jókst úr 32 milljónum króna árið 2014 í 41,6 milljónir í fyrra.

Eignir félagsins voru um síðustu áramót 314,9 milljónir króna og jukust töluvert frá fyrra ári, þegar þær námu 158,2 milljónum. Munar þar mestu um að í fyrra voru eignfærðir sérleyfissamningar upp á 85 milljónir króna. Eigið fé félagsins var um áramótin 205,2 milljónir króna og skuldir 109,7 milljónir. Þar af voru langtímaskuldir 50,3 milljónir.

Eigendur Hamborgarabúllu Tómasar eru Tómas A. Tómasson, Kristín Gunnarsdóttir og IK Holdings ehf., sem er í eigu þeirra Kristínar Sigurðardóttur og Ingva Týs Tómassonar.