Rekstur Jarðborana gekk ágætlega á árinu 2013 en hagnaður félagsins fyrir skatta nam 801 milljón króna á árinu. Tæplega 614 milljóna króna tap var á rekstrinum árið 2012. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

EBITDA félagsins var um 1,5 milljarður, samanborið við 292 milljónir árið áður. Tekjur félagsins námu 6,8 milljörðum króna og þar af voru 85% teknanna vegna erlendra verkefna.

Jarðboranir hófu starfsemi í Asíu á árinu 2013 með borunum á Filipseyjum og þá var markaðsskrifstofa opnuð í Indónesíu. Í tilkynningunni segir að um helmingur alls vinnanlegs jarðhita í heiminum sé í Asíu og því sé mikilvægt fyrir Jarðboranir að ná góðri fótfestu þar. Jafnframt segir að félagið muni hefja starfsemi í fleiri Asíu löndum á þessu ári og einnig sé líklegt að vinna við verkefni í Afríku hefjist í haust.