Alcan Inc. skilaði 331 milljón dollara í hagnað á öðrum ársfjórðungi ársins og er um veruleg umskipti að ræða í afkomu fyrirtækisins frá sama tíma í fyrra þegar tap varð á rekstrinum. Alcan rekur meðal annars álverið í Straumsvík.

Forráðamenn Alcan sögðu að fyrirtækið ætti að njóta aukinnar eftirspurnar á síðari hluta ársins samhliða litlu framboði á áli. Búist er við því að eftirspurn eftir áli aukist um 8,3% á árinu en að framleiðsla aukist aðeins um 5,5%. Þetta hefur leitt til hækkunar á verði en meðalverð á tonninu á öðrum ársfjórðungi var 1.686 dollarar en á sama tíma fyrir ári var meðalverðið 1.379 dollarar.

Hagnaður pr. hlut á öðrum ársfjórðungi var 89 sent miðað við 29 senta tap á liðnu ári. Tekjur fyrirtækisins hækkuðu í 6,3 milljarða dollara.