Hagnaður British Airways (BA) á fjárhagsári þeirra, sem lauk 31. mars, var 883 milljónir punda sem er 45% aukning frá árinu á undan. Hlutabréf BA hækkuðu um 3% í byrjun dags í dag í kjölfar þessara tíðinda.

Forstjóri fyrirtækisins, Willie Walsh, sagði að þetta væri vissulega glæsilegur árangur en hann tók þó ekki sinn árlega bónus vegna þeirra tafa sem orðið hafa á opnun Terminal 5. Starfsmenn fyrirtækisins deila hins vegar með sér 35 milljón punda bónus.

British Airways segja að fyrsti fjórðungur nýs fjárhagsárs verði þeim erfiður vegna hækkandi olíuverðs. Útgjöld félagsins í olíu hækkuðu um 124 milljónir punda milli ára, þrátt fyrir veikari Bandaríkjadals.

British Airways hefur verið mikið í fréttum á þessu ári vegna vandamála fyrirtækisins. Flugmenn þeirra hafa hótað verkfalli og opnun nýju flugstöðvarinnar á Heathrow, Terminal 5, gekk hræðilega. Í byrjun apríl tilkynnti félagið að kostnaður vegna þeirrar ringulreiðar sem skapaðist við opnun Terminal 5 hefði þá kostað félagið um 16 milljónir punda. Byggingin opnaði hins vegar aðeins nokkrum dögum áður en síðasta fjárhagsári lauk og því munu áhrif opnunarinnar koma fram í ársreikningi þessa árs.