Flugfélagið Virgin Atlantic kynnti á föstudag mesta ársfjórðungshagnað sinn fyrir skatta síðan 1999. Flugfélagið, sem er í meirihlutaeigu breska fjármálamannsins Richard Branson, kynnti einnig nýja flugleið félagsins til Dubai og Jamaica. Verður flug þangað hafið á vegum félagsins á næsta ári.

Á 12 mánaða tímabili, fram til 28. febrúar 2005, nam hagnaður félagsins fyrir skatta 68 milljónum punda. Fyrstu 10 mánuði þessa tímabils nam hagnaðurinn hins vegar "aðeins" 20,9 milljónum punda þannig að hagnaðaraukningin hefur verið veruleg síðustu mánuði. Þá jókst velta fyrirtækisins á 12 mánaða tímabili úr 1,27 milljörðum punda í 1,63 milljarða punda.

Félagið gerir ráð fyrir 10% hagnaðaraukningu á árinu m.a. vegna aukningar á flugvélakosti sínum og fjölgun flugleiða. Gert er ráð fyrir að félagið nái hlutdeild frá helstu keppinautum sínum í ferðaþjónustugeiranum.