Í nýútgefinni skýrslu OECD ríkjanna segir að aukið aðhald og harðari peningamálastefnu gæti þurft á Norðurlöndunum til að forðast ofhitnun á efnahagssvæðunum.

Svíþjóð

Hagvaxtarspá í Svíþjóð var hækkuð í 4,3% á þessu ári, en var áður 3,9%, en aukin eftirspurn innanlands á þar helstan þátt í. Spáð er að hagvöxtur verði 3,6% árið 2007, en samkvæmt fyrri spá var hann 3,3%. Árið 2008 er spáð að hagvöxtur verði 2,9%.
Spáð er að tólf mánaða verðbólga mælist 2,2% á næsta ári, en 1,4% á þessu. Í síðustu spá var talið að verðbólga myndi mælast 1% á þessu ári og 2,1% árið 2007. Í skýrslunni segir að aðgerðir nýkjörinnar ríkistjórnar sem miði að því að koma þeim sem hafa verið skráðir á atvinnuleysisbætur til lengri tíma inn á vinnumarkaðinn verði til þess að efla atvinnulífið. Í skýrslunni er spáð að atvinnuleysi mælist 5,5% árið 2006, 5,3% árið 2007 og 4,3% 2008. Í kjölfarið muni laun hækka sem gæti orðið til þess að verðbólga fari yfir 2% markmið seðlabankans. OECD ráðleggur því seðlabanka Svíþjóðar að hækka stýrivexti til að halda verðbólgu niðri og til að koma til móts við áhrif lækkana tekjuskatts sem taka gildi á næsta ári.

Noregur

Hagvaxtarspá Noregs hefur verið hækkuð upp í 3,7% fyrir árið 2006, en í síðustu spá var hún 3,3%. Hagvaxtarspá fyrir árið 2007 var hækkuð úr 2,6% í 3%. Spáð er að hagvöxtur hægist niður í 2,6% árið 2008, en þá verður lokið við stórar olíuframkvæmdir og spáð minnkandi eftirspurn heimilanna.

Spáð er að verðbólga verði 2,2% árið 2006, hún fari niður í 1,7% á næsta ári og fari svo upp í 2,6% árið 2008. Í skýrslunni segir að helsti óvissuþátturinn í efnahagsspánni sé hættan á ofhitnun.

Finnland

Finnland eru eina landið á Norðurlöndunum sem hefur tekið upp evruna og segir OECD að árið líti einnig vel út hjá Finnum.
Spáð er 5% hagvexti á þessu ári sem er hærra en í fyrra en þá var skógarhögg lagt niður í nokkrar vikur, vegna launaágreinings. Spáð er að þjóðarframleiðsla hægist niður í 2,8% á næsta ári, vegna samdráttar í erlendri eftirspurn.

Spáð er 7,8% atvinnuleysi í ár, 7,6% á næsta ári og 7,4% árið 2008, en finnska ríkið hefur hrundið af stað aðgerðum sem miða að því að fjölga störfum, meðal annars með skattalækkunum.

Danmörk

Í skýrslunni segir að þjóðarframleiðsla í Danmörku hafi aukist verulega í ár. Mikil uppsveifla á húsnæðismarkaði og erlend eftirspurn hafi sýnt að skortur sé á vinnuafli. Innlend fyrirtæki séu að tapa markaðshlutdeild og að laun séu að hækka, sérstaklega í byggingargeiranum. Í skýrslunni segir að þó að vextir séu að hækka, peningamálastefna sé enn of hvetjandi og þurfi að forðast að efnahagurinn dragist saman á næsta ári. Í skýrslunni er mælt með að halda áfram aðgerðum til að auka vinnuafl og að gera ætti rástafanir til að minnka eftirspurn ef laun og verðlag taki að ofhitna. Spáð er að hagvöxtur í Danmörku verði 3,5% á þessu ári, 2,6% árið 2007 og 1,6% árið 2008. Spáð er að atvinnuleysi mælist 3,8% á þessu ári, en verði 3,3% næstu tvö árin.