44,3 milljón króna halli var af rekstri Ríkisútvarpsins á fyrri hluta ársins 2017. Var hallinn meiri en á fyrri helmingi ársins í fyrra, þegar hann nam 38,2 milljónum króna. Í tilkynningu frá RÚV segir að fjárhagsáætlanir geri ráð fyrir jákvæðri rekstrarafkomu á árinu. Þar er enn fremur tekið fram að niðurstaðan skýrist aðallega af árstíðabundinni sveiflu í rekstrinum en afkoma RÚV er að jafnaði neikvæð á fyrri hluta árs en jákvæð á hinum síðari.

Tekjur RÚV voru 3.103 milljónir á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við 3.006 milljónir á sama tímabili í fyrra. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 126 milljónir. Kostnaður RÚV vegna skrifstofu útvarpsstjóra, fjármáladeildar og stjórnar nam tæplega 140 milljónum á fyrstu sex mánuðum ársins og jókst um 20 prósent á milli ára.

Heildareignir félagsins í lok tímabilsins námu 7.739 milljónum, eigið fé var 1.825 milljónir og eiginfjárhlutfall 23,6% en eiginfjárhlutfallið hækkaði á síðasta rekstrarári. Fjöldi stöðugilda hjá opinbera hlutafélaginu var að meðaltali 258 á tímabilinu. Skuldir RÚV námu 7,7 milljörðum króna í lok tímabils og lækka þær lítillega á milli ára. Heildarlaunakostnaður hjá stofnuninni hækkaði úr 1.074 milljónum króna upp í 1.091 milljón.