Húsnæðisverð fer hækkandi á fleiri stöðum en á Íslandi. Í Bretlandi hefur meðalverð húsnæðis hækkað síðustu tvo mánuði eða um 0,5% í febrúar og 0,4% í janúar samkvæmt tölum frá Nationwide Building Society, stærsta veðlánafyrirtæki Bretlands. þetta kemur fram í Vegvísi Landsbankans. Þessar niðurstöður eru því til marks um aukinn hita á breska fasteignamarkaðnum.

Á ársgrundvelli minnkaði hækkun húsnæðisverðs þó milli mánaða eða úr 12,6% í janúar í 10,2% í febrúar. Þróun veðlána virðist þó ekki benda til aukinnar þenslu á fasteignamarkaðnum en 79 þús. veðlán voru samþykkt í janúar samanborið við 82 þús. samþykkt veðlán í desember.

"Seðlabanki Englands stendur því frammi fyrir þessum misvísandi vísbendingum um þróun húsnæðismarkaðarins en bankinn hækkaði stýrivexti sína fimm sinnum á tímabilinu nóvember 2003 til ágúst 2004 meðal annars til þess að slá á hækkanir á fasteignamarkaði. Stýrivextir bankans standa nú í 4,75% en sérfræðingar búast við að vextirnir verði hækkaðir einu sinni til viðbótar á þessu ári enda benda framvirkir samningar, sem renna út í júní, til áframhaldandi hækkana," segir í Vegvísinum.