Meðan kaupmáttur hefur að meðaltali aukist mikið á Íslandi, eða um 34% á síðustu sjö árum, 42% frá aldamótum og ef horft er á kaupmáttinn í erlendri mynnt hefur hann tvöfaldast á örfáum árum, er ljóst að ekki hafa allir hópað hækkað jafnmikið.

Greiningardeild Arion banka hefur tekið saman tölur um hvert kaupmátturinn hefur farið. „Eins og oft er sagt þá líður manni „að meðaltali“ ágætlega með annan fótinn í sjóðandi heitu vatni en hinn í ísbaði,“ segir Greiningardeildin til að mynda í nýjustu markaðspunktum sínum sem reynir að svara hvert kaupmátturinn hafi farið.

Meirihlutinn aukið meira við sig en þeir tekjuhæstu

Niðurstaða þeirra á skoðun á tölfræði kaupmáttaraukningarinnar frá aldamótum eftir hópum er sú að heilt yfir hafi jöfnuður aukist hér á landi, þó sumir hópar hafi setið eftir.

Birtist aukinn jöfnuður í því að miðgildi kaupmáttar ráðstöfunartekna hafi aukist meira en meðaltalið sjálft, en einnig í því að fólk sem hefur hærri tekjur en fimmtungur landsmanna hafi fengið meiri aukningu síns kaupmáttar, en þeir sem eru með hærri tekjur en 80% landsmanna.

Þó benda þeir á að kaupmáttur ungs fólks hafi breyst lítið hafi kaupmáttur fólks á sextugsaldi vaxið um þriðjung eða þar um bil.

Meiri aukning kaupmáttar úti á landi

Einnig er munur milli landsbyggðar og höfuðborgar, en þó kaupmáttur á landsbyggðinni hafi aukist meira á tímabilinu, er hann enn meiri á höfuðborgarsvæðinu. Segja þeir að í þeim tölum sé ekki að fullu tekið tillit til mismunandi leigu- og húsnæðisverðs eftir svæðum, svo mögulegt sé að hann hafi jafnvel vaxið enn meira úti á landi.

Jafnframt benda þeir á að einstæðir foreldrar virðast hafa setið eilítið eftir í kaupmáttarþróuninni.

Eldri og barnlausir eignamestir

Þrátt fyrir þetta allt, virðist þó eignadreifingin skipta sköpum og virðist hún almennt hafa verið nokkuð ójafnari frá árinu 1997, sem sést á því að meðaltal eigna hefur aukist meira en miðgildið.

Þeir tveir hópar, sem líklega skarast þó töluvert, sem eru eignamestir eru hjón án barna og fólk sem er 55 til 59 ára. Aðrir samanburðarhópar eru með minni eignir, og hafa eignir þeirra jafnvel minnkað síðustu tvö áratugi, og skera einstæðir foreldrar sig þar talsvert úr. Hefur miðgildi eigna þeirra dregist mikið saman eftir hrun og lítið tekið við sér síðan.

Bendir greiningardeildin því í lokin að tekjujöfnuðurinn hafi frekar aukist hér á landi en hitt, enda sé hann meiri en í öllum ríkjum OECD. Hins vegar hafi ungt fólk bersýnilega setið eftir sem og að eignadreifingin hafi orðið þeim eldri mjög hliðholl en öðrum síður.