Hagnaður húsbílaleigunnar Kúkú Campers nam 118 milljónum króna í fyrra og dróst saman um fimmtung milli ára. Tekjur námu 602 milljónum og jukust um 2,7%, en rekstrargjöld námu 473 milljónum og jukust um 18,6%. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.

Launakostnaður og afskriftir jukust um fjórðung, en annar rekstrarkostnaður um 12,6%. Rekstrarhagnaður nam 129 milljónum og dróst saman um tæpan þriðjung. Nettó fjármagnstekjur námu 26 milljónum, en gengishagnaður upp á 32 milljónir spilaði þar stærstan þátt.

Eignir í árslok námu 517 milljónum, og eigið fé 205 milljónum og jókst um 9,6%. Eiginfjárhlutfall var því 40%.

Greidd laun námu 105 milljónum króna og jukust um 23%, en hjá félaginu „störfuðu til lengri eða skemmri tíma alls 17 starfsmenn á árinu,“ sem er óbreyttur fjöldi frá fyrra ári.

100 milljónir króna voru greiddar í arð á árinu. Fram kemur í skýrslu stjórnar að til standi að leggja til arðgreiðslu á aðalfundi þessa árs, en engin upphæð er tiltekin.