*

mánudagur, 23. september 2019
Innlent 5. september 2019 07:45

Aukinn kostnaður dró hagnað Kúkú niður

Tekjur húsbílaleigunnar jukust lítillega milli ára og voru rúmar 600 milljónir. Rekstrargjöld jukust um tæpan fimmtung.

Ritstjórn
Steinarr Lárr er annar eigenda Kúkú Campers, en hann á félagið til helminga með Guðbjarti Lárussyni.
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður húsbílaleigunnar Kúkú Campers nam 118 milljónum króna í fyrra og dróst saman um fimmtung milli ára. Tekjur námu 602 milljónum og jukust um 2,7%, en rekstrargjöld námu 473 milljónum og jukust um 18,6%. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.

Launakostnaður og afskriftir jukust um fjórðung, en annar rekstrarkostnaður um 12,6%. Rekstrarhagnaður nam 129 milljónum og dróst saman um tæpan þriðjung. Nettó fjármagnstekjur námu 26 milljónum, en gengishagnaður upp á 32 milljónir spilaði þar stærstan þátt.

Eignir í árslok námu 517 milljónum, og eigið fé 205 milljónum og jókst um 9,6%. Eiginfjárhlutfall var því 40%.

Greidd laun námu 105 milljónum króna og jukust um 23%, en hjá félaginu „störfuðu til lengri eða skemmri tíma alls 17 starfsmenn á árinu,“ sem er óbreyttur fjöldi frá fyrra ári.

100 milljónir króna voru greiddar í arð á árinu. Fram kemur í skýrslu stjórnar að til standi að leggja til arðgreiðslu á aðalfundi þessa árs, en engin upphæð er tiltekin.

Stikkorð: Kúkú Campers