Í ræðu sinni á Viðskiptaþingi 2008 sagði Erlendur Hjaltason formaður Viðskiptaráðs að umfjöllunarefni Viðskiptaþings að þessu sinni væri "Íslenska krónan: Byrði eða blóraböggull?“.

Brot úr ræðu Erlendar:

„Þar er vísað til óróans sem einkennt hefur gjaldmiðil okkar að undanförnu. Stöðugur og áreiðanlegur gjaldmiðill er ein af grundvallarforsendum þess að hér sé hægt að reka alþjóðleg fyrirtæki á farsælan hátt.  Sé efnahagslíf í ójafnvægi og peningastefna ekki trúverðug, er hætt við að íslensk fyrirtæki gjaldi fyrir það með beinum og óbeinum hætti. Þetta höfum við þegar séð á Íslandsálagi bankanna, en áhrifanna gætir víðar. Mikilvægt er að fagleg og opinská umræða eigi sér stað um gjaldeyris- og efnahagsmál og að mörkuð verði stefna sem miðar að því að hér verði rekstrarumhverfi fyrirtækja eins og það gerist best annars staðar.

Aukinn stöðugleiki forsenda krónunnar

Frá upptöku verðbólgumarkmiðs árið 2001 má að mestu rekja ójafnvægi í efnahagsmálum til ákvarðana og umsvifa hins opinbera, sem ekki hefur dregið saman seglin í kjölfar hagvaxtarhvetjandi aðgerða.  Það má í raun segja að með aðgerðum sínum hafi stjórnvöld frekar kynt undir hagsveiflunni en dregið úr henni.  Þarna liggur einnig rót umræðu um stöðu íslensku krónunnar sem nú er hávær í samfélaginu og má segja að gjaldmiðillin hafi verið gerður að blóraböggli fyrir hnökra í hagstjórn hér síðustu árin.

Það er því ljóst að aukinn efnahagslegur stöðugleiki er grundvallarforsenda þess að íslenska krónan eigi sér von um framtíð. Til að svo megi vera, er brýnt að stjórnvöld grípi til markvissra aðgerða til að styrkja hagstjórn og auka á trúverðugleika peningastefnunnar.  Í skýrslu Viðskiptaráðs til Viðskiptaþings 2008 er gerð grein fyrir slíkum aðgerðum og mun ég hér tæpa á þeim helstu.

Stjórnvöld axli ábyrgð og styðji við peningastefnu Seðlabankans

Nauðsynlegt er að almenn starfsemi hins opinbera styðji betur við peningastefnu Seðlabanka Íslands og að kerfisbundið sé unnið gegn sveiflum með fjármálastjórn hins opinbera. Þetta verður meðal annars gert með því að gæta betur að trúverðugleika útgjaldaramma ríkissjóðs, sem hefur á undanförnum árum haft tilhneigingu til óhóflegrar útþenslu.

Sértækar aðgerðir, t.d. stærri fjárfestingar og skattalækkanir, ætti undantekningarlaust að tímasetja með hliðsjón af efnahagsástandi hverju sinni.  Skilvirkasta leiðin til þess er að hið opinbera komi stórum atvinnuverkefnum í hendur einkaaðila.  Árangur af einkaframtaki hefur verið ótvíræður á undanförnum árum, og á forræði einkaaðila er líklegra að tímasetningar stórra verkefna ráðist af efnahagsástandi og vaxtastigi en hjá hinu opinbera.    Verkefni á sviðum orkugeirans og samgöngumannvirkja eru þarna augljós kostur.

Íbúðalánasjóður

Það þarf að breyta hlutverki Íbúðalánasjóðs strax og það er á ábyrgð stjórnvalda að upplýsa um neikvæðar afleiðingar af starfsemi hans. Í núverandi mynd er hann ógn við jafnvægi í hagkerfinu og fjármálastöðugleika í landinu. Ríkið á að hverfa frá samkeppnisrekstri í almennum húsnæðislánum og einbeita sér að virkum félagslegum úrræðum fyrir þá sem raunverulega þurfa aðstoð við að koma þaki yfir höfuðið.

Uppgjör og skráning í erlendri mynt

Uppi eru mismunandi skoðanir um uppgjör og skráning hlutabréfa í erlendri mynt.  Þróun í þessa átt er eðlilegur fylgifiskur aukinnar alþjóðavæðingar íslenskra fyrirtækja og forsenda fyrir því að hugmyndir um Ísland sem alþjóðlega fjármálamiðstöð gangi eftir.  Ljóst er að íslensk fyrirtæki hafa margvíslegan ávinning af umbreytingu uppgjörs í aðra mynt.  Það er vanhugsað af stjórnvöldum að sporna við þessari þróun og stuðla þannig að því að íslensk fyrirtæki standi höllum fæti í alþjóðlegri samkeppni. Regluverk á þessu sviði á ekki að einkennast af boðum og bönnum heldur vera opið, almennt og skilvirkt.

Afstaða Seðlabankans, eins og hún birtist í nýlegri umsögn um uppgjör í evrum, gengur þvert á þessar hugmyndir. Hún virðist fremur byggja á andstöðu gagnvart frekari alþjóðavæðingu og afnámi hafta á íslensku viðskiptalífi heldur en neikvæðum áhrifum af uppgjöri fjármálafyrirtækja á peningastefnu bankans.  Þetta er undarlegt í ljósi þess mikla ábata sem framrás íslenskra fyrirtækja á erlenda markaði hefur skilað innlendu hagkerfi á undanförnum árum. Í umsögninni er lítið sem ekkert minnst á neikvæðar afleiðingar uppgjörs fjármálafyrirtækja í erlendri mynt. Það kemur ekki á óvart, enda líklegt að uppgjör fjármálafyrirtækja í erlendri mynt  væri fremur til þess fallið að styrkja peningastefnuna en veikja.

Fjármálamiðstöð

Í október árið 2006 skilaði nefnd á vegum forsætisráðuneytisins skýrslu þar sem lagðar voru fram tillögur að umbótum í íslensku rekstrarumhverfi sem gætu stuðlað að aukningu alþjóðlegrar fjármálastarfsemi sem gæti orðið mikilvæg tekjulind og uppspretta arðbærra sérfræðistarfa.

Fyrstu viðbrögð stjórnvalda lofuðu góðu, en í kjölfar útgáfu skýrslunnar samþykkti þáverandi ríkisstjórn að fela embættismönnum viðkomandi ráðuneyta að vinna frekar úr tillögunum. Nú er rúmt ár liðið frá útgáfu skýrslunnar og ljóst er að fyrirheit ráðamanna voru frekar í orði en á borði. Þar sem tillögurnar voru lagðar fram með það markmið að efla samkeppnishæfni íslensks hagkerfis eru það vissulega vonbrigði að þær hafi ekki hlotið sterkari hljómgrunn af hálfu stjórnvalda.

Evran og mikilvægi þess að stjórnvöld stýri atburðarásinni

Ýmislegt virðist benda til þess að hag Íslendinga verði betur borgið til framtíðar með upptöku evru. Í skýrslu Viðskiptaþings sem liggur hér á borðum er bent á annmarka þess að reka sjálfstæða peningastefnu í jafn opnu og sveiflukenndu hagkerfi og það íslenska er. Afstaða aðildarfélaga Viðskiptaráðs bendir einnig til þess að vilji sé fyrir hendi til taka upp aðra mynt en íslensku krónuna og þar kemur evra helst til greina.

Ákveði stjórnvöld að íslenska hagkerfinu sé betur borgið með upptöku evru þarf að vega og meta þá kosti sem í boði eru. Að því gefnu að tvíhliða samkomulag við Seðlabanka Evrópu sé ekki raunhæfur möguleiki af pólitískum ástæðum, stendur valið í raun á milli þess að hér verði evra tekin upp einhliða eða í gegnum myntbandalag Evrópu. Aðrar leiðir sem kynntar hafa verið eru að öllum líkindum einhvers konar millistig að öðru hvoru markinu.

Enginn vafi leikur á hagrænum yfirburðum með þátttöku í myntbandalagi Evrópu í samanburði við einhliða upptöku evru. Það sem gæti vegið gegn inngöngu í myntbandalagið er skilyrði þess efnis að Ísland þyrfti að ganga í Evrópusambandið. Í því samhengi verður að nefna að töluvert fleiri félagar Viðskiptaráðs voru andvígir umsókn um aðild en hlynntir henni.  Þess vegna er þeim mun brýnna að huga vel að efnahagslegum áhrifum aðildar að Evrópusambandinu, fyrir almenning, fyrirtæki, atvinnugreinar og Íslandi í heild.

Hvert sem markmiðið verður er skýr stefnumörkun alltaf vænlegur kostur. Sitji stjórnvöld með hendur í skauti er hætt við því að evra verði tekin upp með óskipulögðum og óformlegum hætti. Þar með væri tækifæri stjórnvalda til að stýra atburðarrásinni glatað og þau gætu neyðst til að fylgja þróuninni eftir í stað þess að leiða hana.

Að lokum vil ég vitna í Peningamál Seðlabanka Íslands sem birtust í fyrra, sem lýsa mun skynsamlegri afstöðu en þeirri sem birtist í nýlegri umsögn þeirra um uppgjör í erlendri mynt:

Aukna notkun erlendra gjaldmiðla í íslensku efnahagslífi má líta á sem eðlilega afleiðingu alþjóðavæðingar og afnáms hafta á íslensku athafnalífi og fjármálakerfi. Hún er hins vegar ekki síður afleiðing ofþenslu og óstöðugleika sem ríkt hefur undanfarin ár og endurspeglast í mikilli verðbólgu, háum vöxtum og sveiflum í gengi krónunnar.

Að hindra þessa þróun með boðum og bönnum er ekki líklegt til að skila árangri. Efnahagslegur kostnaður hafta á fjármagnshreyfingum er að líkindum meiri en ábatinn. Skynsamlegasta leiðin til að stuðla að því að krónan verði áfram nothæfur gjaldmiðill á íslenskum fjármálamarkaði er að haga innlendri hagstjórn þannig að dragi úr hvata til að nota erlenda gjaldmiðla. Það verður best gert með því að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Takist stjórnvöldum að tryggja að umsvif í þjóðarbúskapnum séu í samræmi við framleiðslugetu verður verðlag stöðugra og krónan betri miðill í viðskiptum, og sem reikningseining og viðmiðun í samningum.

Í raun draga þessar tvær málsgreinar saman kjarna þeirrar stöðu sem við stöndum frammi fyrir og þeim aðgerðum sem nauðsynlegt er að grípa til, hvora leiðina sem við förum, að halda krónunni eða kasta. Við horfum til þess að stjórnvöld taki frumkvæðið, í samstarfi við íslenskt viðskiptalíf.

Tími orða er liðinn og tími aðgerða verður nú að taka við.“