Stuðningur við Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu hefur aukist samkvæmt könnun MMR. Fylgi Samfylkingarinnar hefur aukist úr 16,7% í 24,1% á milli kannana og fylgi Sjálfstæðisflokks úr 24,3% í 29,0%. Fyrri könnunin var gerð dagana 20.-21. janúar, þegar mótmælin við Alþingi stóðu sem hæst og tveimur dögum áður en tilkynnt var um slit fyrri ríkisstjórnar.

Fylgi VG og Framsóknar minnkar

Fylgi VG minnkar á milli kannana úr 28,5% í 23,4%. Fylgi Framsóknarflokksins minnkar einnig, úr 17,2% í 14,9%. Fylgi Frjálslyndra lækkar úr 3,3% í 1,5% og Íslandshreyfingin fær nú 0,4% stuðning en mældist síðast með 2,2%.

Þeim sem segjast myndu kjósa aðra stjórnmálaflokka fækkar úr 7,9% í 6,6%.

Ofangreindar tölur eru þeir sem tóku afstöðu, en það voru 58%. Óákveðnir voru 27%, þeir sem myndu skila auðu 9%, þeir sem myndu ekki kjósa 3% og þeir sem ekki vildu gefa sig upp voru 4%.

Könnunin var framkvæmd dagana 11.-12. febrúar og var heildarfjöldi svarenda 971 einstaklingur.