Tekjur ríkissjóðs af vöru- og kolefnisgjöldum á eldsneyti, bifreiðagjaldi og vörugjöldum af ökutækjum undanfarin fjögur ár námu samtals 160 milljörðum króna.

Alls runnu 36 milljarðar af slíkum álögum í ríkiskassan árið 2013, en í fyrra nam upphæðin 44 milljörðum. Um er að ræða þriðjungs aukningu milli ára.

Þetta kemur fram í svari Benedikts Jóhannessonar, fjármálaráðherra við fyrirspurn Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, þingmanns Vinstri grænna, um vegamál.

Spurði hún meðal annars hversu stór hluti þeirra tekna sem hafa verið markaðar til vegagerðar hefðu skilað sér til nýframkvæmda og viðhalds vega. Í svari fjármálaráðherra kom fram að sérstakt bensíngjald, olíugjald og kílómetragjald hefðu runnið til vegagerðar og að þetta væru þær tekjur sem markaðar eru til vegagerðar.