Frá öðrum ársfjórðungi jukust endurheimtur á eignasafni Landsbanka Íslands um 18 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi. Í erlendum myntum hefur raunverðmæti eignasafnsins hækkað um tæplega 130 milljarða króna frá 30. apríl 2009 til 30. september 2010, eða að meðaltali um tæplega 21 milljarð króna á hverjum ársfjórðungi.

Í fréttatilkynningu frá Landsbankanum segir að á það sé að líta að langstærstur hluti eignasafnsins sé erlendis og því gefi fjárhæðir í erlendum myntum raunhæfan samanburð á virðisaukningu. „ðeins rúm 8% af heildareignum bankans er í íslenskum krónum. Í erlendum myntum eru endurheimtur bankans um 93% af forgangskröfum, en vegna mikillar hækkunar íslensku krónunnar á tímabilinu eru endurheimtur í þeirri mynt áætlaðar 86% þann 30. september síðastliðinn.“

Heildareignir rúmlega 1100 milljarðar króna

„Heildareignir bankans voru metnar á 1.138 milljarða króna þann 30. september síðastliðinn, en voru metnar á 1.100 milljarða króna þann 30. apríl 2009. Mjög jákvætt er að reiðufé innheimtist hraðar en fyrri áætlanir bankans gerðu ráð fyrir. Samkvæmt áætlunum bankans í byrjun árs 2010 var gert ráð fyrir að reiðufé næmi um 319 milljörðum króna í árslok sem jafngildir um 286 milljörðum króna á gengi 30. september sl. Reiðufé bankans í lok september sl. nam um 293 milljörðum króna, eða hærri fjárhæð en áætlað var í ársbyrjum að staða reiðufjár væri í árslok. Af þessu sést að árangur bankans hvað þetta varðar er vel umfram fyrri áætlanir.“