Í lögum um peningaþvætti sem tóku gildi um þarsíðustu áramót eru gerðar nokkrar kröfur til millistórra fyrirtækja, þar á meðal að tryggja að þau auðkenni og búi yfir fullnægjandi upplýsingum um viðskiptamenn sína.

Þá þurfa þeir að móta sér stefnu og verkferla í peningaþvættismálum, og svo þurfa þeir að útnefna ábyrgðarmann sem sér um að tilkynna þau mál sem tilefni þykir til til eftirlitsaðila. Séu þessar kröfur ekki uppfylltar liggja við því háar stjórnvaldssektir, en sem dæmi nemur upphæðin frá 5 og upp í 625 milljónir króna hjá Fjármálaeftirlitinu, og hjá Skattinum frá hálfri upp í 500 milljónir, auk þess sem hægt er að beita dagsektum.

„Ég hugsa nú að fæstir fasteigna- og listmunasalar, sem dæmi, séu að spá mikið í þessu. Það getur verið erfitt að afla upplýsinga um viðskiptaaðila, og þeir hafa fá tól til þess. Þetta eru ansi miklar kröfur sem settar eru á herðar smárra og millistórra fyrirtækja. Það sem við höfum verið að gera er að búa til lausnir fyrir þessa aðila sem hafa ekki bolmagn – tæknilega getu eða annað – til að sinna þessu almennilega,“ segir Valur Þór Gunnarsson, stofnandi og framkvæmdastjóri sprotafyrirtækisins Taktikal, sem býður fyrirtækjum upp á lausn í þeim málum.

Meðal þess sem lausnin hjálpar fyrirtækjum með er að auðkenna viðskiptavini við upphaf viðskiptasambands. „Þetta er gert með því að leggja fram spurningalista, sem við hjálpum þeim við, ásamt því að halda utan um skjölun á því. Við erum svolítið að tvinna saman hinar ýmsu lausnir, og erum meðal annars í samstarfi við sprotafyrirtækið Nátthrafn ásamt erlendum aðilum. Útkoman er eitt ferli sem áhættumetur kúnnann heildstætt og uppfyllir í leiðinni skilyrði laganna.“

Þetta losar um leið fyrirtækið undan ábyrgð ef í ljós kemur síðar að kúnninn er ekki sá sem hann segist vera, eða er að færa til fjármuni í ólögmætum tilgangi.

Aðeins 1% peningaþvættis sem upp kemst
Á hinum enda skalans hannar hugbúnaðarfyrirtækið Lucinity lausnir fyrir allra stærstu og tæknilega burðugustu fjármálafyrirtækin. „Okkar kerfi er fyrst og fremst hannað fyrir fjármálafyrirtæki, auk annarra fyrirtækja með mjög stóran viðskiptamannagrunn,“ segir Darri Atlason, þróunarstjóri Lucinity, en meðal viðskiptavina fyrirtækisins hér á landi er fjárfestingabankinn Kvika.

Kröfur til fjármálafyrirtækja eru öllu strangari en annarra fyrirtækja í þessum efnum, og hjá þeim allra stærstu eru starfræktar mörg þúsund manna deildir í þeim eina tilgangi að yfirfara færslur. „Þeim er gert að fylgjast með hegðun viðskiptavina sinna og tilkynna alla grunsamlega hegðun til viðeigandi yfirvalda. Þetta er allt frekar lauslega skilgreint hjá eftirlitsaðilum. Í grunninn er regluverkið samevrópskt, en fyrirtækin fá þónokkuð svigrúm við túlkun og framkvæmd þess.“

Hugsunin að baki lausn Lucinity – sem byggir á flóknum hugbúnaði á borð við vélnám og svokallaða hjálpargreind – er að kerfið sem sér um að þefa uppi grunsamlegar færslur sé í sífelldri þróun og læri jafnóðum, frekar en að byggja á fyrirfram skilgreindum reglum. Með hjálp vélnáms ásamt beinnar aðkomu starfsmanna verður eftirlitið lifandi tæki sem ekki er hægt að sjá fyrir og komast hjá með þeim hætti sem hingað til hefur verið stundað.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .