Stóru endurskoðendafélögin fjögur í Bretlandi hafa fram til ársins 2024 til að aðskilja endurskoðunardeildir sínar frá ráðgjafareiningum eftir opinbera tilskipun frá eftirlitsaðilum í einni mestu umbyltingu í iðnaðinum í nokkra áratugi, segir í frétt Financial Times .

Breska reikningsskilaráðið (FRC) hefur gefið út meginreglur fyrir aðskilnað rekstrar endurskoðunardeilda hjá PwC, Deloitte, KPMG og EY. Fyrirtækin þurfa að skila úrdrætti um innleiðingu allra 22 reglnanna fyrir lok október næstkomandi og ljúka þarf aðgerðunum fyrir júní 2024.

Þetta eru fyrstu kerfislægu umbreytingarnar á starfsháttum fyrirtækjanna frá gjaldþroti breska verktakafyrirtækisins Carillion árið 2018. Umbætur á sviði endurskoðenda hefur verið til umtals á undanförnum árum eftir fjölda gjaldþrota hjá stórum fyrirtækjum líkt og BHS, Thomas Cook og nú síðast Wirecard.

Aðskilnaður efnahagsreikninga endurskoðunar- og ráðgjafardeilda

Inngrip FRC ganga þó ekki svo langt að brjóta þurfi upp fyrirtækin í sér félög, líkt og sumir stjórnmálamenn höfðu óskað eftir í kjölfar gjaldþrots Carillion.

Áætlanir FRC eiga að tryggja að fyrirtæki greiði endurskoðendum sínum laun í samræmi við ágóða af endurskoðunarstörfum, að fjármál endurskoðunardeilda verði aðgreind með sérstökum rekstrareikningi og að sett verði á fót sjálfstætt enduskoðunarráð til þess að sjá um gæðaeftirlit.

FT hefur eftir starfsmanni hjá einum af fjóru endurskoðendarisunum að krafan um aðskilnað efnahagsreiknings skapi „martröð“ þar sem það mun neyða fyrirtækin að skipta upp sameiginlegum miðstýrðum rekstrarkostnaði.

Endurskoðunarstörf risanna fjögurra vega um fimmtung af tekjustreymi þeirra sem er töluvert lægra en ráðgjafardeildir þeirra sækja til sín.

Koma í veg fyrir víxlniðurgreiðslur

Breytingarnar eru hannaðar til að bæta gæði endurskoðunar og til að auka „seiglu endurskoðunarmarkaða“ með því að tryggja að „engar efnislegar, kerfislægar víxlniðurgreiðslur (e. cross-subsidy) haldi áfram milli endurskoðunarstarfa og annarra deilda“, samkvæmt FRC.

Eftirlitsstofnunin gekk þó ekki svo langt að krefjast að launagreiðslur og hagnaður af endurskoðunarstörfum verði aðskilið frá öðrum tekjulindum. Sumir gagnrýnendur iðnaðarins höfðu kallað eftir slíkum breytingum til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra þar sem greiðslur til endurskoðenda koma frá sameiginlegum hagnaði deildanna.

FRC hefur einnig kveðið á um að hagnaðargreiðslur til endurskoðendafyrirtækja „ættu ekki að vera umfram framlag endurskoðunarstarfanna til hagnaðar“ og að endurskoðendur „ættu að starfa í þágu allra hagaðila endurskoðaðra eininga og samfélagsins í heild; þeir eru ekki ábyrgir fyrir stjórn endurskoðuðu eininganna“.

Breytingarnar munu ekki eiga við um meðalstór endurskoðunarfyrirtæki líkt og BDO, Grant Thornton og Mazars, sem endurskoða fjölda skráðra fyrirtækja og fjármálastofnana.