Auknar líkur eru á samdrætti hér á landi á næsta ári ef marka má svar fjármálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi í liðinni viku og nýjum fréttum af frestun á afgreiðslu á láni til Orkuveitu Reykjavíkur.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, segir mjög auknar líkur á samdrætti hér á landi á næsta ári verði byggingu álvers í Helguvík og tilheyrandi orkuframkvæmdum frestað um eitt ár. Verði af framkvæmdunum eins og áformað hafi verið sé gert ráð fyrir lítils háttar hagvexti á næsta ári. Þetta kemur fram í svari ráðherra við fyrirspurn Ásbjörns Óttarssonar, alþingismanns.

Nú þegar eru auknar líkur á töfum

Í fréttum RÚV í gær sagði frá því að Evrópski fjárfestingarbankinn hefði ákveðið að afgreiða ekki lán til Orkuveitu Reykjavíkur vegna Hverahlíðarvirkjunar. Ætlunin var að nota orku þaðan fyrir álverið í Helguvík. Haft var eftir stjórnarformanni Orkuveitunnar að þetta gæti haft áhrif á hagvöxt og á stöðugleikasáttmála ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins.

Líkur á töfum eru því þegar orðnar meiri en þegar Ásbjörn lagði fyrirspurnina fram. Það var í lok júní, eða áður en fyrir lá að af fjármögnun yrði ekki eins og áformað hafði verið. Ásbjörn spurði hvaða áhrif það hefði á þjóðarbúskapinn ef framkvæmdum í Helguvík og tengdum orkuverkefnum yrði frestað um eitt, tvö eða þrjú ár, en fjármálaráðherra sagði ekki mögulegt að reikna þessi áhrif til fullnustu innan þess tíma sem gæfist til að svara. Í svari ráðherra kemur fram að gert sé ráð fyrir þessum framkvæmdum í spá ráðuneytisins og að framundan sé tími slaka á vinnumarkaði og mjög lítils hagvaxtar og því sé kjöraðstæður fyrir slík verkefni.

Minni og meðalstór verkefni kynnu að fara af stað

Í svarinu kemur fram að frestun um tvö ár eða lengur valdi því að mjög miklar líkur séu á að samdráttur verði á næsta ári og að hann kunni að standa lengur en annars. Verði verkefnunum frestað um tvö eða þrjú ár muni stærsti kúfur umsvifa vegna þeirra lenda á tímabili þar sem spár í dag telji að hagkerfið verði að komast á skrið á nýjan leik og slaki að hverfa. Slík tímasetning væri því óheppileg, segir ráðherra. Hann bendir um leið á að rétt sé að hafa í huga að þó svo færi að þessar framkvæmdir frestuðust kynnu önnur minni og meðalstór verkefni að fara af stað á þessum tíma, en nokkur slík verkefni væru í undirbúningi.