Breskir fjölmiðlar telja að líkur hafi aukist verulega á að enska knattspyrnuliðið West Ham verði selt. Samkvæmt frétt breska götublaðsins The Sun gætu erfiðleikar fyrirtækjaveldis Björgólfs Guðmundssonar valdið því. Um leið bendir blaðið á að misheppnaðar tilraunir erlendra fjárfesta til að kaupa Newcastle og Tottenham geti aukið áhugann á West Ham. Verðmiðinn á þessum félögum var einfaldlega of hár eða 400 til 500 milljónir punda. Blaðið veltir því upp að hugsanlegt sé að vekja áhuga fjárfesta á West Ham nú þegar nýir tímar blasi við eiganda þess.

Björgólfur keypti West Ham fyrir 85 milljónir punda fyrir tæplega þremur árum og tók yfir skuldir upp á 22,5 milljón punda. Ágætt gengi félagsins nú í upphafi tímabilsins undir stjórn knattspyrnustjórans Gianfranco Zola ætti að gera félagið að betri söluvöru.

Frétt The Sun er reyndar ekki mjög nákvæm og þeir blanda gjarnan saman viðskiptum þeirra feðga.